Skírnir - 01.09.2012, Page 54
314
SVANUR KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
ráðherra og notaði skipun sýslumannsembætta til að treysta valda-
stöðu síns flokks, Framsóknarflokksins, með kerfisbundnum hætti.
Lengi vel komu dómsmálaráðherrar nær eingöngu úr röðum Fram-
sóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Vart verður annað sagt en að
jafnræði hafi verið með dómsmálaráðherrum flokkanna tveggja í
skipun embættismanna úr eigin flokki.11
I kjölfar mikilla deilna um veitingar opinberra embætta fluttu
fjórir þingmenn Framsóknarflokksins snemma árs 1968 tillögu til
þingsályktunar um embættaveitingar. Þar sagði m.a.: „Alþingi
ályktar að kjósa fimm manna nefnd hlutfallskosningu í sameinuðu
þingi til að undirbúa heildarlöggjöf um embættaveitingar og starfs-
mannaráðningar ríkisins og ríkisstofnana, þar sem stefnt sé að því að
tryggja sem óháðast og ópólitískast veitingavald og starfsmanna-
val.“ I greinargerð var tilefni tillögunnar útskýrt þannig:
Veitingavaldið er að langmestu leyti í höndum ráðherra, og hefur svo verið
síðan stjórnin fluttist inn í landið. Embættaveitingar hafa því oft viljað vera
pólitískar, þótt aldrei hafi það verið augljósara en hin síðari ár. Sú hefð er
óðum að skapast, að ekki komi aðrir menn til greina við veitingu meiri háttar
embætta en þeir, sem hafa skilríki fyrir því, að þeir fylgi ríkisstjórninni eða
flokkum hennar að málum. Hér er ekki aðeins um fullkomnustu rangsleitni
að ræða, heldur hlýzt af þessu, að hið opinbera verður oft og tíðum að
notast við lakari starfskrafta en ella. (Alþingistíðindi 1967 A 2: 1251)
Að loknum umræðum var tillögunni vísað til nefndar en ekkert
nefndarálit kom fram. Á næsta þingi var tillagan endurflutt en aftur
svæfð í nefnd. Engu að síður fóru fram í þinginu í bæði skiptin
efnismiklar og góðar umræður þar sem reynt var að greina vand-
ann án þess að þingmenn væru sammála um einstök mál eða leiðir
11 Um feril Jónasar sem dómsmálaráðherra sjá Guðjón Friðriksson 1992: hér
einkum 43-61. Eftir samfellda átta ára setu (1959-1967) tveggja dómsmálaráðherra
Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafsteins, birti blaðið
Alþýðumaðurinn á Akureyri lista yfir 15 veitingar embætta sýslumanna og
bæjarfógeta; allar voru til þekktra sjálfstæðismanna, um helmingur hafði meira
að segja verið þingmenn eða varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins. Sbr. Svan Kristj-
ánsson 1994:182-183. Finnur Jónsson úr Alþýðuflokki var dómsmálaráðherrann
1944-1947. Á þeim stutta tíma náði hann að skipa tvo forystumenn flokksins í
embætti sýslumanns og bæjarfógeta: Friðjón Skarphéðinsson og Guðmund í.
Guðmundsson.