Skírnir - 01.09.2012, Blaðsíða 80
340
ÓLAFUR GÍSLASON
SKÍRNIR
frjálslynda lúterska guðfræðikenningu sem Jón Jónsson skóla-
meistari á Bessastöðum hafði innrætt honum. Eftir ársdvöl í Kaup-
mannahöfn skrifar hann árið 1828 til vinar síns Jónasar Hallgríms-
sonar sem þá var enn í Bessastaðaskóla:
Ég sé að sönnu, að alt er hér betra og þægilegra, þegar peninga ekki skortir
... en ég hefi samt svo mikla löngun til að finna kerlinguna hnarreistu
heima, hana móður okkar; ég vil heldur lifa í sulti og seiru í kaföldunum þar,
en í þessari Paradís eða réttara í þessum glaumi og skarkala — í þessu ólgu-
hafi, hvar óbilugustu klettarnir, sem maður ætlar að grípa og halda sér fast,
þegar í ramman rekur, falla um koll og svíkja mann við minsta iðukast; nei,
hér vil ég ekki vera! (TS 1907: 46—47)
Þrátt fyrir yfirlýsingar á borð við þessa naut Tómas lífsins og þeirrar
aðstöðu sem hann hafði við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem
hann lagði höfuðáherslu á guðfræði- og heimspekinám, en var auk
þess vakandi og opinn fyrir öllum þeim fróðleik og allri þeirri
menntun sem honum stóð til boða. Sá háskólakennari sem virðist
hafa haft mest áhrif á Tómas var guðfræðikennarinn H.N. Clausen
sem taldist frjálslyndur guðfræðingur af rómantíska skólanum og
hafði andæft gegn altækri rökhyggju upplýsingarinnar eins og hún
birtist til dæmis hjá Grundtvig. Clausen hafði verið nemandi
Schleiermachers hins þýska sem Tómas átti eftir að hitta í Berlín og
hrífast af. Tómas fór eina ferð til Islands sumarið 1829 og fór þá
ríðandi norður í land með viðkomu í Garði í Aðaldal, þar sem hann
kynntist Sigríði Þórðardóttur, dóttur sýslumannsins í Norður-
Þingeyjarsýslu. Munu þau hafa trúlofast á laun og beið Sigríður eftir
heitmanni sínum í fimm ár, en hann kom ekki aftur í Aðaldalinn
fyrr en alkominn úr utanlandsferðum sínum í október 1834 þegar
þau gengu í hjónaband. Tómas lauk guðfræðiprófi með „besta
karakter“ í janúar 1832, 24 ára gamall, og var þá þegar farinn að
huga að ferðalagi um meginland Evrópu. Ekki til þess að tefja fyrir
heimferðinni þar sem heitkonan beið hans, heldur þvert á móti til að
auka við menntun sína og þekkingu á menningarmálum almennt og
helstu tungumálum álfunnar, þýsku, ítölsku, frönsku og ensku „svo
ég geti haft fult gagn af bókverkum þeirra, en til þess er það hið ein-
asta tilhrökkvandi meðalið, að uppihalda sér 1 eða 2 ár á meðal