Skírnir - 01.09.2012, Side 104
364
ÓLAFUR GÍSLASON
SKÍRNIR
Því miður vantar sjálfa ferðasöguna af þessari siglingu í ferða-
bókarhandrit Tómasar, þar sem einungis er minnst á upphaf ferðar-
innar. Af sendibréfum Tómasar má hins vegar ráða hvílíkt ævintýri
hér var um að ræða:
Um borð voru fleiri kongar, prinsar og konglegar persónur, lengri eða
styttri part af reisunni. Hér mátti meðal hálfs annaðs hundraðs manna sjá
fólk af öllum stöndum og heyra undir eins töluð ein 20 tungumál. Þvílík
reisa hefir því víst aldrei verið gerð, og hér var svo mikið allareiðu á skip-
inu að sjá og læra, að það borgaði ómakið að gera hana. Þar að auki eru
löndin, sem við nú sáum, eins nafnfræg í veraldarsögunni (svo sem heila
Grikkland, hvers inndælasti staður er Aþenuborg), eins og hin önnur fyrir
sína fögru náttúru (svo sem höfuðstaður Tyrkjalanda: Konstantínópel, þar
sem við vorum í 15 daga. Hann er miklu fegurri en Neapel og svoleiðis feg-
urst af öllum stöðum sem til eru).
Þannig segir Tómas frá í bréfi til föður síns 28. ágúst 1834, þá
nýkominn til baka til Napoli. Af bréfum Tómasar má lesa eftirfar-
andi leiðarlýsingu frá Napoli: Messina, Catania, Siracusa, Corfu,
Patras, Korintuflói, Delfi, Pyrgas, Olympia, Navarino, Naflion,
Mykena, Argos, Hydra, Poros, Ægina, Istmos-eiðið, Kórinta,
Aþena, Smyrna, Mytilene-eyja, Tenedos-eyja, Trója, Hellusund,
Marmarahafið, Konstantínópel, Svartahafið, Zanthe-eyja, Siracusa,
Agrigento, Palermo, Napoli.
Af þessum stöðum standa Aþena og Konstantínópel upp úr í
minningu Tómasar, en viðdvölin var fimm dagar í Aþenu og 15
dagar í Konstantínópel. Aþena var meira og minna í rústum eftir
undangengnar styrjaldir, og töldust íbúar hennar nú í hundruðum,
en ekki hundruðum þúsunda eins og á stórveldistíma hennar.
Allir vita ... hve mikið þessi bær hefir gert fyrir heiminn, enda á enginn
bær, hvað leguna snertir, við betri kjör að búa. [...]! Róm — á foro Rom-
ano — verður að grafa 20 fet í jörð ofan, til þess að geta þar staðið á „klass-
ískri grund“, en í Aþenuborg stendur enn óhreyfður kletturinn, þar sem
Sókrates talaði gegn Alkibiadesi, og Períkles ávarpaði lýðinn, og á Akropolis
hefði mátt líta listaverk Phídiasar, eins og hefðu þau verið gjörð fyrir 10
árum, ef siðleysi manna hefði ekki á síðustu árum fengið að eyðileggja þau
— þó, sem betur fer, ekki nema að hálfu leyti. Að Rómaborg einni undan-
skilinni hefir mér hvergi fundizt tíminn líða jafnfljótt og þá 5 daga, sem ég