Skírnir - 01.09.2012, Page 127
SKÍRNIR
UPPREISN FJOLDANS
387
Ef við lítum nú aftur á þær staðreyndir sem greint var frá í upp-
hafi munu þær koma okkur ótvírætt fyrir sjónir sem sendiboðar
breytinga í viðhorfum fjöldans. Þær gefa allar til kynna að hann hafi
afráðið að færa sig upp á fyrsta samfélagslega stig og sækja staðina
og nota tækin og njóta nautnanna sem áður voru ætlaðar hinum fáu.
Það gefur til dæmis auga leið að staðirnir voru ekki hugsaðir fyrir
margmenni, til þess eru þeir of litlir að flatarmáli, og manngrúinn
flæðir inn í þá án afláts og færir þannig augunum með sjónrænum
tjáningarhætti heim sanninn um hina nýju staðreynd: fjöldann sem
án þess að hætta að vera fjöldi veltir úr sessi minnihlutanum.
Enginn mun, að ég hygg, harma að fólkið njóti sín í meira mæli
og fleira nú en áður, nú þegar það hefur lystina og tækifærin. Hið
slæma er að sú ákvörðun sem fjöldinn hefur tekið, að yfirtaka athæfi
sem tilheyrt hefur minnihlutahópum, birtist ekki né getur birst ein-
vörðungu á sviði nautna, heldur er hún almennur verundarháttur
tímans. Þannig — svo stokkið sé fram til þess sem síðar verður
skoðað — tel ég að pólitísk nýbreytni undanfarinna ára merki ekki
annað en stjórnmálalegt alræði fjöldans. Hið forna lýðræði lifði
dempað af vænum skammti af frjálslyndi og ákafri hrifningu á lög-
unum. I þjónustu sinni við þessi lögmál skuldbatt einstaklingurinn
sig til þess að gangast undir harðan aga. Undir vernd lögmála frjáls-
lyndisins og reglna dómskerfisins gátu minnihlutarnir lifað og
starfað. Lýðræði og lög voru samheiti, lögbundið samlífi. I dag
verðum við vitni að sigurgöngu ofurlýðræðis þar sem fjöldinn hefur
bein áhrif án laga, í gegnum þrýstitæki, og knýr fram metnaðarefni
sín og smekk. Það er rangt að túlka hinar nýju stöður sem svo að
fjöldinn hafi þreyst á stjórnmálunum og feli umsýslu þeirra í hendur
sérhæfðra einstaklinga. Þvert á móti. Þetta er það sem áður henti,
þetta var frjálslynt lýðræði. Fjöldinn gerði ráð fyrir að þegar öllu
væri á botninn hvolft væri það svo að minnihluti stjórnmálamanna,
með öllum þverbrestum sínum og smánarblettum, skildi örlítið
meira í opinberum vandamálum en hann. Núna telur fjöldinn sig
aftur á móti eiga rétt á að þröngva fram kaffihúsatuggum sínum og
gæða þær krafti laga. Mér er til efs að til hafi verið önnur tímabil í
sögunni þar sem manngrúanum tókst að stjórna með jafn beinum
hætti og á okkar tímum. Þess vegna tala ég um ofurlýðræði.