Skírnir - 01.09.2012, Blaðsíða 135
SKÍRNIR
UPPREISN FJOLDANS
395
sinni mun verða fyrir þeirri blekkingu að skynja nútíðina sem fall
ofan af hátindi, sem hnignun.
En gamall söguáhugamaður, óforbetranlegur púlstakandi tíma,
má ekki láta blekkjast af þessari sýnd hinna meintu hátinda.
Eins og ég hef sagt er meginforsenda þess að til sé „fylling tím-
ans“ sú að gömul þrá sem hefur mjakast áfram með ákafri löngun
og þjáningu svo öldum skiptir nái einn dag að uppfyllast. Og í raun
eru þessir fullnuðu tímar sáttir við sjálfa sig; stundum, eins og á nítj-
ándu öld, voru þeir ofuránægðir. En nú rennur upp fyrir okkur að
svo sáttar sem þær voru, þessar aldir, voru þær dauðar að innan. Hið
sanna lífsfrjómagn felst ekki í sátt, í velgengni, í kjölfestu. Cervantes
hafði þegar komið að því orðum að „vegurinn er alltaf betri en næt-
urstaðurinn". Tími sem hefur uppfyllt þrá sína, hugsjón sína, þráir
ekki lengur neitt, brunnur löngunar hans hefur þornað upp. Það er
að segja að þessi rómaða gnægð er í raun niðurstaða. Til eru tímabil
sem sökum þess að kunna ekki að endurnýja þrár sínar deyja úr sátt,
rétt eins og hin lukkulega karlbýfluga drepst eftir brúðkaupsflugið.
Þaðan kemur sú óvænta staðreynd að þessi svonefndu gnægtar-
tímabil hafi ætíð skynjað í eigin brunni stórkostlega sérstæðan harm.
Þrána sem með hægð var komið á fót og virtist loks rætast á nítj-
ándu öldinni mætti draga saman og kalla „nútímamenningu“. Jafn-
vel nafnið er uggvænlegt. Að tímabil kalli sjálft sig „nútímann", það
er að segja síðustu tíð, endanlega, nútíð sem gerir alla aðra tíma að
einskærri þátíð, þrotlausum undirbúningi og vonarþrá eftir nú-
tímanum! Máttlausum örvum sem drifu ekki í mark!
Er ekki hér farið að djarfa fyrir grundvallarmuninum á okkar tím-
um og þessum sem var að renna sitt skeið og hverfa sjónum? Okkar
tímar upplifa sig raunar ekki lengur sem endanlega; þvert á móti, í eigin
rót finna þeir í myrkrinu það hugboð að engir tímar séu endanlegir,
öruggir, að eilífu kristallaðir, heldur þvert á móti, þessi uppgerð að ein
tegund lífs - hin svokallaða „nútímamenning“ - geti verið endanleg
orkar á okkur sem blinda, sem ótrúverðug rörsýni á sjónarsviðið. Og
þegar okkur líður þannig fer um okkur dýrðleg kennd fyrir því að
hafa sloppið úr girðingu, þröngri og lokaðri, og komið út að nýju undir
stjörnunum í hinn sanna heim, djúpan, hræðilegan, ófyrirsjáanlegan og
ómælanlegan, þar sem allt er mögulegt: það besta og það versta.