Skírnir - 01.09.2012, Side 181
SKÍRNIR BÓKMENNTIR OG BÓKMENNTASAGA ... 441
sem þeir hafa notið; og þegar dæmt er um ritgjörðina skal eigi fara eptir
því, hversu mikla eða litla þekkíngu pilturinn sýnir í einhverri einstakri vís-
indagrein, heldur eptir því, hversu ljós hugsun lærisveinsins er, og hversu
vel, skýrt og hreint, hann getur orðfært hugsanir sínar. („Reglugjörð um
kennsluna og lærdómsprófin í hinum lærða skóla í Reykjavík" 1868: 522)
Lengi framan af höfðu ritgerðarefni til burtfararprófs því aðallega
siðferðilega skírskotun, eins og eftirfarandi verkefni sem skóla-
skýrslur tilgreina bera með sér: „Hvað er sannsögli?" (1853), „I
hverju er sönn hugprýði innifalin?“ (1854), „Hverjar eru þær æðri
hugsanir, sem vakna hjá manninum, þegar hann skoðar náttúruna?"
(1855). Einnig voru nemendur oft látnir útlista þýðingu tiltekins
máltækis, t.d. „Sá er vinur, er í raun reynist" (1861). Við úrlausn
slíkra verkefna komu lestrarbækurnar sem notaðar voru við stíl-
æfingar, t.d. Store og gode Handlinger eftir Malling, vafalaust að
góðum notum. I þeim undantekningartilvikum að ritgerðarefni
höfðu bókmenntalega tilvísun var einnig lögð áhersla á nytsemi eða
siðferðisgildi efnisins. Dæmi um slíkt er verkefni frá 1855: „Hvaða
not geta menn haft af lestri skemmtisagna (Romaner), og hvað illt
getur af honum leitt?“
Litlar breytingar urðu á ákvæðum um móðurmálskennslu í
reglugerð um lærða skólann frá 12. júlí 1877 sem tók að hluta til
mið af lögum um latínuskóla í Danmörku frá 1871. Áfram var
kveðið á um að piltum skyldi lærast að tala og rita móðurmál sitt
hreint, rétt og lipurt, auk þess sem þeir skyldu smám saman kynn-
ast bókmenntasögu Islands og helstu ritum þess. Meginnýmælin
fólust í öðru prófafyrirkomulagi við burtfararpróf, þ.e. tveimur
skriflegum verkefnum í stað eins, og skyldu gefnar tvær einkunnir
fyrir úrlausnirnar:
I [íslensku] skal prófið að eins vera skriflegt, og því hagað svo, að lögð sjeu
fyrir lærisveinana 2 skrifleg verkefni, annað almenns efnis, en hitt þannig
lagað, að lærisveinar við úrlausn þess geti notað einhverja þá námsgrein, er
þeir hafa numið í skólanum. („Auglýsing um reglugjörð fyrir hinn lærða
skóla í Reykjavík“ 1877: 28)
Hér var í raun staðfest prófreglugerð sem tók gildi í Danmörku árið
1864 og var auglýst hér á landi en ekki framfylgt („Bekjendtgjörelse