Skírnir - 01.09.2012, Síða 189
SKÍRNIR BÓKMENNTIR OG BÓKMENNTASAGA ... 449
Gunnar Harðarson 1994: 169-176). Ljóst er að hann hefur eins og
Gísli Thorarensen vitað af hugmyndum manna um bókmennta-
söguritun, m.a. hvers konar verk bæri að flokka sem bókmenntir,
þótt hann fylgdi ekki nýjustu straumum. I upphafi er mikilvægt að
átta sig á því hvernig hann nálgaðist viðfangsefnið, bókmennta-
sögu Islendinga frá 874 til 1263, afmarkaði það og skipaði því
niður.
Bókmentasaga íslendinga á að skýra frá þeim ritum, sem til eru eptir ís-
lenzka rithöfunda. Hagkvæmast sýnist að skipta henni í kafla, og taka fyrsta
kaflann frá Islands byggingu til Sæmundar fróða og Isleifs byskups, eða frá
874 til 1056.
Frá þessu tímabili, sem nær undir þann tíma, þá fyrst var tekið að rita
sögur á landi hér, er ekki annað til vor komið, það sem vér getum greint höf-
unda til, en kvæði og kvæðabrot og einstakar vísur skálda þeirra er þá voru
uppi. Hér skulu ekki talin upp öll skáld, heldur að eins þau merkilegustu.
En af því skáld þessi, mörg hver, voru hirðskáld, optast hjá Noregskon-
ungum, stundum líka hjá Danakonungum, Svíakonungum eða Englands-
konungum, þá skal nú upp telja þá Noregskonunga, sem uppi voru á þessu
tímabili. (177)
Eins og hér kemur fram fjallaði Sveinbjörn í meginatriðum um ís-
lenskarþjóðarbókmenntir, þ.e. verk sem nafngreindir innlendir höf-
undar sömdu á íslensku. Hann vék þó aðeins að innlendum
latínuritum og í sumum handritum sagði hann einnig frá norskum
dróttkvæðaskáldum sem undirbjuggu jarðveg íslenskra bókmennta.
Þá gerði Sveinbjörn nokkra grein fyrir kvæðum Sæmundar-Eddu
þótt hann teldi óvíst um höfundinn. Að öðru leyti einskorðast bók-
menntasöguyfirlitið við höfunda sem voru uppi á þjóðveldisöld, þ.e.
frá landnámi þar til Islendingar gengu Noregskonungum á hönd.
Þessum tíma skipti Sveinbjörn í tvö smærri skeið sem náðu annars
vegar frá 874 til 1056 og hins vegar frá 1056 til 1262. Þeir tveir at-
burðir sem greina þau að og gerðust árið 1056 eru fæðing Sæmundar
fróða, sem látin er marka upphaf íslenskrar sagnaritunar, og vígsla
Isleifs Gissurarsonar sem fyrsta íslenska biskupsins.
Að óathuguðu máli væri freistandi að álykta að Sveinbjörn hafi
með afmörkun og niðurskipan efnis síns tengt bókmenntasöguna
innlendri stjórnmála- og menningarsögu líkt og Thortsen gerir í