Skírnir - 01.09.2012, Page 208
468
ARI PÁLL KRISTINSSON
SKÍRNIR
um sveitirnar“. Hér er sem sé eins konar jafnaðarmerki milli lands-
byggðarinnar og hreins máls en óæskileg áhrif berast úr þéttbýlinu.
Orð Ársæls votta um tilraun til þess að sveipa sveitalífið og
hefðbundið málfar saman dýrðarljóma.5
Dæmin hér á undan veita innsýn í það hvernig hin þjóðernislega
málhugmyndafræði gat birst í opinberri umræðu á Islandi í byrjun
fimmta áratugarins. í reynd og framkvæmd birtist hún í öflugri mál-
hreinsun þar sem annars vegar var reynt að útrýma óæskilegum til-
brigðum og kerfisbreytingum sem höfðu sprottið upp í málinu
(innri málhreinsun) og hins vegar erlendum áhrifum á málið (ytri
málhreinsun).
Beinna áhrifa ríkjandi málhugmyndafræði um og upp úr 1940
varð ekki síst vart í skólastarfi. Til dæmis hvatti Skúli Þorsteinsson
skólastjóri (1941) skólabörn til að koma á fót málverndarnefndum
í skólunum. Nefndirnar ættu að gera lista um algengustu málvillur
sem heyrðust í viðkomandi skóla eða bekk og svo annan samsvar-
andi lista með réttri málnotkun. Síðan yrði börnum bent á þær villur
sem hvert og eitt gerði sig oft sekt um. 1 þessu sambandi benti Skúli
(1941: 109) sérstaklega á þágufallssýki. Svo er að sjá sem fólk hafi
verið meira og minna upptekið af sömu villunum aftur og aftur,
jafnt á sviði málfræði (ekki síst af þágufallssýki) og orðaforða (fyrst
og fremst af erlendum orðum), sjá t.d. Helga Hjörvar (1939), Sigurð
Thorlacius (1939), Stefán Jónsson (1942) og Árna Þórðarson (1943).
Umvandanir, ábendingar og umræður kennara og annarra full-
orðinna gátu svo skilað sér í orðræðu barna.6
5 Raunar litu margir svo á, ekki aðeins af málfarslegum ástæðum, að þéttbýlið væri
óhollt börnum og unglingum. Þeir töldu að börn ættu að kynnast hefðbundinni
bændamenningu, amstrinu á venjulegum sveitabæjum og að vera sem mest úti í
náttúrunni. Ymsir litu þar af leiðandi á það sem jákvæð hliðaráhrif hernámsins
sumarið 1940 þegar ákveðið var, af ótta við loftárásir á Reykjavik, Hafnarfjörð og
Akureyri, að senda nokkur hundruð börn þaðan á ýmsa sveitabæi og heimavist-
arskóla. Sjá t.d. leiðara Alþýðublaðsins 3. september 1940 þar sem Rauði krossinn
og kennarar fá hrós fyrir skipulag flutninganna og því er bætt við að alltaf þyrftu
„helzt öll börn héðan úr Reykjavík að komast í sveit yfir sumarmánuðina“.
6 Árið 1941 hafa þrjú tölublöð Unga Islands (nr. 1, 8 og 9-10) að geyma smágreinar
eftir börn og unglinga um málfar. Greinarnar hafa yfirskriftirnar „Móðurmálið"
og „Verndum móðurmálið“. Þar eru umvandanir t.d. frá 12 ára stúlku sem bein-
ast að þágufallssýki; undan sömu málvillu kvartar 11 ára stúlka sem jafnframt varar