Skírnir - 01.09.2012, Page 212
472
ARI PÁLL KRISTINSSON
SKÍRNIR
I útvarpsávarpi sínu föstudagskvöldið 10. maí hvatti Hermann
Jónasson forsætisráðherra landsmenn til að líta á
hina brezku hermenn, sem komnir eru til Islands, sem gesti, og samkvæmt
því sýn[a] þeim, eins og öðrum gestum, kurteisi í hvívetna. (Hermann
Jónasson 1940)11
Hversu hlýtt sem mönnum var til Breta varð þó ekki fram hjá því
horft að um var að ræða erlendan her sem í þokkabót varð mjög
fjölmennur hlutfallslega. Margir töldu því ástæðu til að líta setuliðið
gagnrýnum augum og segja það ógna menningu þjóðarinnar. Ekki
síst býsnuðust íslenskir sósíalistar og kommúnistar, aðallega fyrsta
árið, yfir hernáminu sem þeir tengdu heimsvaldastefnu auðvalds-
ríkja.12 Afstaða þeirra mildaðist sumarið 1941 þegar í ljós kom að
Hitler virti ekki griðasáttmálann við Stalín heldur réðst inn í Sovét-
ríkin sem þar með voru komin í bandalag með Bretum og Banda-
ríkjamönnum gegn Þjóðverjum og Itölum.13
í heimildum frá hernámsárunum verður þess vart að margir
landsmenn hafi litið á málið og frelsið sem náskyld og jafnvel
óaðskiljanleg fyrirbæri. Þetta má merkja m.a. í ummælum þar sem
t.d er komist að orði á þessa leið:
Allir þeir, sem unna frelsi og íslenzku máli, munu líka vera sammála um það,
að hér dugi ekki að standa hjá og hafast ekki að. (Ársæll Sigurðsson 1941: 70)
„Vjer erum í hættu staddir.“ Svo hljóðar fyrirsögn áramótahug-
leiðingar Alexanders Jóhannessonar háskólarektors í Morgunblað-
11 Gunnar Stefánsson (1997: 171) segir að orð forsætisráðherra um að taka skyldi
Bretum sem „gestum“ hafi farið „fyrir brjóstið á þeim sem töldu sér skylt að
fjandskapast við hið erlenda innrásarlið".
12 Hjá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni (2011: 185) kemur fram að daginn fyrir
hernámið hafi fulltrúar Komintern afhent Kristni E. Andréssyni fyrirmæli um
stefnu Sósíalistaflokksins. „Kommúnistar skyldu berjast gegn allri viðleitni
enskra og bandarískra heimsvaldasinna til að undiroka landið“. Því hafi sósíalistar
tekið „hernámi Breta sýnu verr en menn annarra flokka" (2011:186). Kristinn E.
Andrésson lýsti viðhorfum sínum m.a. í Tímariti Máls og menningar (1940a,
1940b, 1941a, 1941 b). Átök kommúnista og sósíalista við bresku herstjórnina
náðu svo langt að herinn lét handtaka tvo ritstjóra og einn blaðamann á Þjóðvilj-
anum í apríl 1941, sjá t.d. Gunnar M. Magnúss 1964: 306-307.
13 Sjá t.d. Hannes Hólmstein Gissurarson 2011: 192-193, 197.