Skírnir - 01.09.2012, Side 216
476
ARI PÁLL KRISTINSSON
SKÍRNIR
orðræðu barna, t.d. í þessu dæmi frá 12 ára stúlku 1941 (úr Unga Is-
landi 36 (8)):
Nú er mikið gert að því að hreinsa tunguna. Það er líka þörf á því, þar sem
enskir hermenn eru. Börnin taka orð upp eftir þeim og garga þetta, hvar
sem er.
Hvað sem leið óskum forsætisráðherra um kurteisi við hina erlendu
„gesti“ voru börn og unglingar, einkum stúlkur, alvarlega vöruð við
því að umgangast hermennina. Á hernámsárunum voru kennarar
og skólastjórar sú stétt sem einkum stóð gegn samskiptum unglinga
og hermanna (Þór Whitehead 1999: 95). Skólastjórar settu saman
„Reglur fyrir skólanemendur“ (24. sept. 1940) þar sem aðalboðið
var að „forðast allt óþarfa samneyti við hið erlenda setulið" (Aðal-
steinn Sigmundsson 1941: 72).
Grein Stefánsjónssonaríbarnablaðinu Unga Islandi 1941 veitir
hugmynd um hvernig íslenskur kennari ræðir við börn og unglinga
til að fá þau ofan af umgengni við dátana:
... nú undanfarið hef ég séð mörg ykkar, sem mér er kunnugt um, að
kaupið og lesið Unga Island, í fylgd með erlendum hermönnum. Ég hef
heyrt ykkur vera að reyna að babla mál, sem þið kunnið ekkert í og ég hef
horft á stolt ykkar yfir því, að einnig þið væruð farin að umgangast út-
lendinga og tala, að ykkar áliti, þeirra mál. — Ég hef hvað eftir annað rekizt
á ykkur þar, sem þið hafið verið á hvimleiðu vakki í kringum herbúðirnar
og það jafnvel á þeim tíma, er skyldan bauð ykkur að vera annars staðar. Og
ennfremur hef ég svo heyrt þau ykkar, sem ég daglega umgengst, í ykkar
hópi blanda inn í mál ykkar margs konar erlendum orðum, er þið viljið
sýna kunnáttu ykkar. (Stefán Jónsson 1941: 139)
Skilaboðin eru skýr til hinna ungu lesenda og margt sem þeir skulu
gæta sín á. Ekki eru börnin hvött til að læra hið erlenda mál svolítið
betur, t.d. af útlendingunum sjálfum, heldur eru þau vöruð við og
bent á að þau gætu orðið að athlægi — sem börn vilja náttúrlega síst
af öllu að gerist innan um jafningjana — þegar aðrir komast að því
hve málfærnin er fátækleg. Stefán lætur jafnframt í það skína að er-
lend orð séu þegar farin að læða sér inn í mál barnanna og boð-
skapur hans er vitaskuld sá að alls ekki skuli umgangast þessa
útlendinga.