Skírnir - 01.09.2012, Page 242
502
ÓLAFUR GÍSLASON
SKÍRNIR
Listamaðurinn átti að endurskapa heiminn. Það eru ekki efni til þess
hér að greina þær fjölmörgu vísanir í hermetísk fræði sem þessi
mynd geymir, það nægir að vísa til þess að við þurfum enga „fagur-
fræði“ til að nema þau skilaboð. Enda hefur Dtirer varla skilið
merkingu þess orðs frekar en hugmyndina um „almennan feg-
urðarsmekk“ og „hlutlausa fullnægju". Sagan um leiðina að visku-
steininum í gegnum píslarvætti efnisins, um leiðina í gegnum hið
kosmíska myrkur og upp stigann að hinu eilífa ljósi sannleikans, er
hér sögð á meistaralegan hátt með dulmálslyklum launsagnarinnar.
Getur Melancholia Durers orðið okkur vísbending um leynileg
skilaboð nakta mannsins í myndbandinu Preludet
Ef við lítum á Melancholiu Dúrers og Prelude sem hliðstæður þar
sem bæði verkin sýni með sínum hætti tilvistarlegar aðstæður lista-
mannsins við sköpunarstarf sitt, þá vaknar sú spurning, hvað greini
á milli: Að hvaða leyti er framsetning Dúrers frábrugðin mynd-
bandinu og hvaða lærdóm gætum við dregið af því? Hið augljósasta
er tæknilegs eðlis: Önnur myndin er hreyfð og með hljóði, hin er
kyrr og þögul. Sá munur skiptir kannski ekki meginmáli í þessu
sambandi. Hitt er mikilvægara, að Dúrer notar hér ímyndaða per-
sónugervingu melankólíunnar sem staðgengil sinn, en höfundurinn
er sjálfur, aleinn og nakinn í aðalhlutverkinu í Prelude.
Hér gæti verið fróðlegt að líta til þess líkingamáls sem Friedrich
Nietzsche mótaði í fyrsta riti sínu um gríska harmleiki (Die Ge-
burt der Tragödie) þar sem hann gengur út frá hinu apollónska og
díonysíska sem tveim andstæðum og samvirkandi pólum í grískum
harmleikjum, en þessi hugsun átti eftir að móta alla heimspeki hans.
Þessir tveir pólar hinnar apollónsku og díonysísku visku stóðu jafn-
framt fyrir sýndina og veruna, hina fastmótuðu mynd (eins og hún
birtist í höggmyndinni) og ómótaða óreiðu og kviku sársaukans og
nautnarinnar (eins og hún birtist í tónlistinni) samkvæmt Nietzsche.
Hann segir þessi öfl takast á í öllum listum, þar sem hið apollónska
er gríman sem felur undirliggjandi kviku sársaukans. Ef við berum
saman þessi tvö verk Dúrers og Sigurðar Guðjónssonar í ljósi
þeirrar tilgátu að þau sýni bæði tilvistaraðstæður hins skapandi lista-
manns, þá er hin díonysíska óreiða falin undir mörgum lögum af
apollónskum grímum í verki Dúrers, öllum táknmyndunum úr