Tímarit Máls og menningar - 01.02.2004, Side 66
Þorsteinn Þorsteinsson
Og svo framvegis. Ljóð Katúllusar er með öðrum orðum tilbrigði við
stefið Carpe diem - að njóta lífsins til hins ítrasta meðan kostur er - en
Sigfús snýr línunum uppí lofsöng um það að vera laus við lífið, vera
.tryggilega, örugglega, lukkulega dauður' og fá að sofa endalausa nótt.
Gæfa hins dauða er mikil: Hann hefur engan Akkillesarhæl, hann er
dauður „hvaðan sem á hann stendur veðrið“, „hvaða klámhögg sem hann
er sleginn“, „og Áhyggjurnar sigla sinn sjó fyrir honum“. Hann sér þær
fyrir sér í líki glæsikvenda þar sem þær „strunsa eins og frillur konunga
[... ] eins og ástmeyjar Múhameðs [... ] og hverfa inn í sumarbláan busk-
ann“. Hann er alsæll að vera dauður og fögnuðurinn er smitandi:
Nætur og dagar mega flækjast hvert fyrir öðru,
hringsnúast og svífa,
hrapa, springa, endaveltast, sökkva:
og hann er jafndauður fyrir því.
Ég talaði um að tónninn í fyrstu ljóðunum væri glettinn, en gamanið er
þó býsna grátt. Ekki er fjarri lagi að þarna sé kominn „hinn þróttmikli
húmor“ sem Sigfús skrifaði árið 1964 að sjaldgæfur væri í íslenskum
bókmenntum.7
„Annað bjartsýnisljóð: um dauðann“ ber einkunnarorð eftir Hóras,
annað höfuðskáld Rómverja, úr hinu fræga kvæði hans „Minnisvarði“
(„Exegi monumentum aere perennius", Carmina III, 30):
Non omnis moriar multaque pars mei
Vitabit Libitinam.
(Aldrei alveg ég dey; eitthvað af sjálfum mér
flúið gröfina fær ... )8
Einnig hér notar Sigfús einkunnarorðin í írónískum tilgangi. Kvæði
Hórasar er stolt yfirlýsing skálds um að hann hafi skapað sér ódauðleika
með skáldskap sínum, að líkindum sú frægasta af því tagi. Ég vitna hér í
upphaf kvæðisins í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, aftur að línunum sem
Sigfús síterar:
Háan varða ég hlóð haldbetri’ en mynd úr eir,
hærri’ en hyrning sem rís hreykinn á Keops gröf;
hvorki regnskúr né hvasst harðleikið norðanrok
brýtur bautastein þann, brákar né leikur grátt;
tímans ágengu tönn tekst ekki’ að skerða hann.9
64
TMM 2004 • 1