Tímarit Máls og menningar - 01.02.2004, Qupperneq 98
Aðalsteinn Ingólfsson
dóttur tókst með þrautseigju að reka um rúmlega fjögurra ára skeið.
Gallerí Skuggi við Hverfisgötu berst í bökkum. Og þá þarf ekki að koma
neinum á óvart hversu mjög viðskipti með myndlist hafa dregist saman,
jafnt umboðs- og uppboðsviðskipti sem bein sala á sýningum. Sömuleið-
is er óumdeilt að verð á myndverkum hefur alls ekki fylgt annarri verð-
þróun í landinu. Einnig hefur verið klipið af fjárveitingum til opinberra
safna, sem ætluð hafa verið til reglulegra innkaupa á myndlist. Á móti
kemur að styrkjum til myndlistarmanna hefur fjölgað til muna, sömu-
leiðis samkeppnum um útilistaverk og önnur opinber myndverk. En þar
sem myndlistarmönnunum hefur fjölgað enn meira - 20-30 útskrifast úr
Listaháskólanum á hverju ári - hefur þessi jákvæða breyting haft óveru-
leg áhrif á myndlistarumhverfið.
Myndlistin hefur einnig verið afskipt í fjölmiðlum, jafnvel sjónvarpi
sem er eins og sniðið fyrir útsendingar á myndlistarefni. Sem einnig er,
nóta bene, með ódýrasta efni sem völ er á. Aukinheldur hefur prentmiðl-
um fækkað. Til samanburðar má geta þess að á öndverðum sjötta ára-
tugnum voru gefin út fimm dagblöð í Reykjavík sem flest reyndu að birta
umsagnir eða upplýsingar um myndlist, þrjú menningartímarit með
umtalsverðan metnað (Líf og list, Birtingur, Vaki) og að auki eitt tímarit
fyrir jassgeggjara! Nú reynist æ erfiðara að fá inni fyrir myndlistartengt
efni í þeim prentmiðlum sem eftir eru, nema þá í ritum eins og Skírni
sem koma út tvisvar til fjórum sinnum á ári. Eins og stendur er Morgun-
blaðið eini fjölmiðillinn sem sinnir myndlistinni í landinu af myndar-
skap.
Auðvitað er minnkandi áhugi á myndlist hér á landi ekki hluti af nátt-
úrulögmáli, né heldur er hann einvörðungu um að kenna andvaraleysi
þeirra sem eiga að hlúa að henni. Það er staðreynd að sjónlistir eiga nú í
harðri samkeppni um frítíma fólks við aðra sjónmiðla, fjölrása sjón-
varpsstöðvar og allskyns upptökur í stafrænu formi, gerðar til heima-
brúks. Þegar búið er að þenja plasma-sjónvarpsskerma yfir endilanga
stofuveggi er vandséð hvar myndverkin eiga að vera. Býður ekki Bill Gat-
es slíku skermafólki aðgang að heimslistinni í áskrift?
Vel má vera að þetta áhugaleysi sé að einhverju leyti sjálfskaparvíti
listamannanna á landinu. Innbyrðis deilur þeirra sjálfra í fjölmiðlum, svo
ekki sé minnst á atlögur þeirra að listfræðingum og öðrum svokölluðum
„stjórnendum“ myndlistarinnar, hafa ekki verið til þess fallnar að auka
áhuga á henni meðal almennings, sjá til dæmis vitleysislegar greinar um
„útskúfun málverksins“ sem birtast með reglulegu millibili.
Og hve langt er síðan íslenskir myndlistarmenn hafa vakið máls á
þeim tilvistarvanda sem við búum við, einhverju þjóðþrifamáli eða list-
96
TMM 2004 • 1