Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Page 18
Þórbergur Þórðarson
„Við gætum fengið far með lestinni klukkan ellefu annað kvöld, en
óvíst hvort við getum fengið nokkuð sæti, um svefnvagn var ekki að tala.“
En Margrét hafði komið sér í mjúkt samband við verkfræðing sem
vann á járnbrautarstöðinni, og hann bauð henni að gera allt sem hann
gæti til að útvega okkur sæti í lestinni.
Svona var þá perspektívið, eins og Danir segja: Standa upp á endann,
ekki óhugsanlegt að fá að sitja uppi í tvo sólarhringa. Ljótt var. Við vorum
samt sammála um að standa við okkar ákvörðun. Og nú urðum við létt-
ari og bjartari í sálinni, þó að perspektívið væri ófagurt. Perspektívið
suður á bóginn virtist okkur ennþá skuggalegra.
Þegar sólu tók að halla lögðum við út í göngu upp mikla hæð bak við
hótelið, sennilega álíka háa og þórar Öskjuhlíðarnar hver uppi á annarri.
Uppi á hæðinni stóð ein risavaxin fígúra á stalli, í flaksandi kápu, hald-
andi merki byltingarinnar hátt á lofti og með eldmóð hennar í allri sinni
líkamsstellingu. Við þræddum okkur upp einn skástíginn af öðrum þar
til við komum upp á hæðina. Þetta var falleg útsýni. Búdapest er stór-
borg, eins og þú veist, saman sett úr tveim borgum: Búda og Pest. Búda
er þeim megin Dónár sem við bjuggum. Hún er fögur. Hinumegin er
Pest. Hún er blandaðri, falleg á pörtum en eins og gengur og gerist á
öðrum stöðum. í þeirn parti er mikið af verksmiðjum og verksmiðjureyk
sem gerir allt óyndislegra. Það er auðfundið á öllu að uppbyggingin
gengur hér með miklum krafti. Allar krár og kaffihús og matstofur voru
full af fólki. Enga sorg né súrleik sá ég á andlitum fólks. Það var létt yfir
því. Mál þess hljómar þægilega, og ungverski bjórinn er góður. Hans nafn
virtist mér vera: Hungaría. Viágos sör.
Þegar kvölda tók hófum við langa göngu yfir Dóná og síðan eftir einu
löngu stræti. Þar var krá við krá og búð við búð og sægur fólks á ferð.
Breidd Dónár sté ég niður þarna og reyndist hún vera 109 faðmar, en
gangur hótelsins sem við bjuggum á, endilangur, var 61 faðmur, 122
skref. Þar af mátt þú nokkuð sjá þess mikilleik.
Á þessari göngu sáum við letrað með stórum stöfum utan á einum
húsvegg hinumegin við götuna, segi og skrifa orðið Hús, en orð með
smærra letri stóðu á undan og eftir. „Sjáðu, Margrét! Þarna stendur orðið
hús,“ sagði ég. „Skyldi íslendingur búa þarna?“ Ég var kominn á fremsta
hlunn með að bruna yfir götuna og spyrjast fyrir í húsinu, hvort þar
byggi íslendingur, en í stað þess settumst við inn á krá og fengum okkur
sinn bjórinn hvort og leiddum augum mannlífið. Síðan röltum við heim
á Súperlúxó í næturrökkrinu og kviðum fyrir ferðinni til Kaupmanna-
hafnar. Við vorum litlar og einmana manneskjur, en heimurinn stór og
miskunnarlaus.
16
TMM 2004 • 3