Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Blaðsíða 82
ÁRNI BERGMANN
spítalanum sem skoðaður er og fylgir gestinum um allt og „svarar sjálfur
öllum spurningum, sem þú spyrð ekki, til þess að komast hjá því að
upplýsa þig um það sem þú vilt fá að vita... Enginn mun neita þér um
neitt en þér verður fylgt um allt og kurteisin verður að aðferð til að hafa
eftirlit með gestinum.“10 Með öðrum orðum: de Custine greinir hér frá
aðferðum „sendinefndakerfisins“ sem fullkomnaðar voru á dögum Stal-
íns: mönnum er sýnt allt mögulegt - en það er í gangi hugvitsamlegt kerfi
yfirmáta gestrisni, sem kemur í veg fyrir að eitthvað óþægilegt fyrir ríkið
og herra þess beri fýrir eyru eða augu.
Óskaland píslarvotta frelsisins
Rússland hið mikla og dularfulla gat orðið heimkynni vona evrópskra
mónarkista um innilegt tilfinningasamband keisara (eða kónga) og
þegna. En þegar á líður nítjándu öldina verður þetta „fangelsi þjóðanna“
í vitund óþolinmóðra róttækra gáfumanna Vesturlanda að hinu fyrir-
heitna landi í þeim skilningi, að þeir gera Rússland að heimkynni pólit-
ísks hetjuskapar og píslarvættis. Hér er landið þar sem hugrakkir sam-
særismenn, sem lifa fýrir frelsis- og byltingarhugsjónina eina, leggja allt
undir í baráttu við harðstjórnina og hreppa í staðinn dauðadóma eða
þrælkun í Síbiríu. Rússland er þá sett upp sem andstæða við dauflegt
pólitískt hjakk á Vesturlöndum og leiðinlegan smáborgaramóral, við það
er fest byltingarómantík sem var að nokkru leyti undirbúningur þeirrar
trúar á Sovétríkin sem síðar reið húsum.
í þessari lotu Rússlandstrúar komu margir við sögu, til dæmis fagur-
kerinn Oscar Wilde. Hann skrifaði árið 1885 leikritið Vera or the Nihilists
þar sem teflt er saman heilögu ofstæki byltingarsinna og gjörspilltri harð-
stjórn og allt getur gerst: bæði keisaramorð og svo það, að sjálfur ríkisarf-
inn reynist vera einn af níhilistunum!
Eftirtektarverðara er það, að annar helsti kenningasmiður marxism-
ans, Friedrich Engels, lætur í fróðlegu bréfi til rússneskrar byltingarkonu
árið 1885 í ljós vonir um að næsta stórbylting í Evrópu verði einmitt í
Rússlandi. Þetta mat er nokkuð á skjön við þá meginhugmynd Marx
sjálfs, að byltingar sé helst von þar sem verkalýðsstéttin sé fjölmenn og
vel skipulögð í helstu iðnríkjum Evrópu. í bréfi þessu byggir Engels ein-
mitt á þeirri sérstöðu Rússlands, að þar sé afar mótsagnakennt samfélag,
bæði frumstætt og nútímalegt, sem haldið sé saman af harðstjórn sem
með óbærilegu framferði sínu sé að magna upp gegn sér allskonar bylt-
ingaröfl - nú þurfi, segir Engels, ekki annað en „hrinda skriðunni af stað“
til að bylting hefjist í slíku landi.11
80
TMM 2004 • 3