Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Blaðsíða 59
Tilgangur. Komdu. Himinn.
saman. Þeir fara saman í gegnum þessa bók feðgarnir, og Þráni tekst að
búa til tilfinningu fyrir lífi þeirra saman í mörgu ósögðu. Samt er í sjálfu
sér ekkert dregið undan: drykkjuskap föðurins er lýst án þess að dómar
séu lagðir upp í hendurnar á lesanda eða einu sinni það sé alltaf skelfi-
legt, enda á hann til undursamlega hluti undir áhrifum, eins og þegar
hann fer með drenginn til að kaupa handa honum hjól, þótt líka geti
keyrt um þverbak eins og þegar drykkjusjúklingur gerist um hríð heim-
ilisvinur með tilheyrandi dropadrykkju...
Af þessum þremur höfundum gefur Þráinn sér bestan tíma til að leyfa
litlum og merkilegum atvikum bernskunnar að njóta sín, hann kann þá
list að láta frásögnina anda, kann að láta lesandann hreiðra um sig í hæg-
indum hins mjúkláta stíls og líða áfram á öldum frásagnarinnar og heyra
fyrir sér þjóðkunna röddina. Þrátt fyrir allt flandrið á þeim feðgum er
frásögn Þráins bundin þrengra sviði en hinna tveggja - en verður fyrir
vikið á einhvern undarlegan hátt breiðari lýsing og nær að öðlast betur
en hinar bækurnar samfélagslega skírskotun. Hann dvelur lengur við
atvik bernskunnar og dregur eins og í leiðinni upp mynd af íslandi eftir-
stríðsáranna. Hann er meira að segja ófeiminn við að lýsa dæmigerðum
minningum sem heilu kynslóðirnar eiga sameiginlegar - barnakarnívali
þrjúbíósins eða ráðvilltu borgarbarninu í sveit - en hið sterka sjálf
drengsins sem er vitundarmiðja frásagnarinnar bjargar henni frá því að
verða einskær stikkorð á ódýra nostalgíu. Við finnum fyrir þessum dreng
í hverri setningu, viðkvæmni hans, klaufaskap, mislyndi, umkomuleysi
og staðfestu. Þráinn skrifar yfirlætislausan og ljósan stíl og notar mikið
greinaskil og bil og sögulega nútíð. Allt þetta gerir að verkum að það er
rúmt um lýsingarnar, ró ríkir yfir textanum. Höfundurinn virðist skrifa
eina setningu í einu og þagna á milli, liggur við að maður sjái hann klóra
sér í hökunni milli setninga. Hér er dæmi nánast af handahófi - svona
kveður hann móður sína undir lok bókarinnar eftir að hafa minnst föður
síns:
Mamma dó 1994 og hafði þá liðið sæmilega síðustu 25 árin. Hún var löngu flutt
af Kleppi og komin á geðdeild í Hátúni sem var sjónarmun heimilislegri en geð-
fangabúðirnar á Kleppi.
Ég heimsótti hana oft og stundum var meira að segja hægt að tala hana inn á
að koma í heimsókn til mín þótt hún væri stressuð yfir því að komast til baka í
tæka tíð því að hún hafði meðal annars það trúnaðarstarf að útdeila sígarettum til
þeirra sjúklinga á deildinni sem höfðu það fyrir afþreyingu að reykja.
Hún var akkúratmanneskja og vildi ekki að það væri neitt upp á sig að klaga.
Ég kom of seint morguninn sem hún dó. Hún var búin að skilja við. Ég kyssti
á ennið á líkinu. Ég hafði aldrei áður séð dána manneskju.
TMM 2004 • 3
57