Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Page 20
Stefán Máni
Glæpasaga íslands
íþremur stökkum án atrennu
„Fjórir grímuklæddir ræningjar fremja innbrot á Kambi í Flóa.“
Þann 9. febrúar síðastliðinn voru 177 ár frá Kambsráninu (1827), einu
elsta dæmi um skipulagða glæpastarfsemi í íslandssögunni, að minnsta
kosti ef miðað er við skipulega glæpastarfsemi eins og við þekkjum hana
nú. Illskan sem lifir bak við fyrirsögnina hér að ofan, sem er fengin úr rit-
inu Öldin sem leið 1801-1860, hún lifir í hjörtum gerendanna sem leynast
bak við krassandi fyrirsagnir nútímans; hún er leiðarljós þeirra siðblindu
misindismanna sem á hverjum degi stinga saman ncfjum í undirheimum
samfélagsins og skipuleggja auðgunarglæpi ýmiskonar, sem þeir síðan hika
ekki við að hrinda í framkvæmd, og helgar þá tilgangurinn ávallt meðalið.
Nóttina þegar Kambsránið var framið var stormur mikill og hrak-
viðri, og vaknaði heimilisfólkið á Kambi við þann illa draum að fjórir
menn, djöflum líkastir, höfðu brotið upp bæinn og lögðu á það hendur
þar sem það lá nakið í rekkjum sínum. Fólkinu var hótað pyntingum og
dauða, því var fleygt fram á gólf og það bundið á höndum og fótum og
kaffært undir sængurfötum, heyi og reiðingi, sem grímuklæddir ræn-
ingjarnir tættu upp úr rúmunum í leit að fjársjóði þeim sem sögur
hermdu að bóndinn á bænum hefði í fórum sínum. Fór svo að lokum að
þeir fundu þúsund ríkisdali í peningum í kistli sem þeir brutu upp og
höfðu sjóðinn á brott með sér, eftir að hafa hótað heimilisfólkinu því að
bærinn yrði brenndur og það með.
Ekki er hægt að merkja að þetta grófa rán sé á nokkurn hátt frá-
brugðið til dæmis þeim bankaránum sem framin hafa verið á síðustu
árum og misserum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem starfsfólk og við-
skiptavinir eru teknir í tímabundna gíslingu á meðan vopnaðir og
grímuklæddir ræningjar hafa í hótunum og láta greipar sópa í gjaldkera-
stúkum áður en þeir hverfa aftur ofan í undirheimana. Og eins og fyrr á
öldum þá er hvorki friður né helgi yfir heimilum og lífi borgaranna, ef
óvinveittum aðilum sýnist svo.
18
TMM 2004 ■ 3