Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Síða 58
Guðmundur Andri Thorsson
í honum - meira að segja samskipti drengs og ómælis himingeimsins
sem virðist það eina sem hefur eitthvert svar handa drengnum, einhver
úrræði að veita honum, einhverja átt að benda honum. Maður hefur á til-
finningunni að þarna ráðist líf hans, þarna hefst staðfastur flækingur
hans um heiminn, sjálfstæðishvöt hans og óbeit á skuldbindingum. Allt
er kurteislegt, slétt og fellt í þessari skelfilegu senu sem endar með því að
hann afræður að fara til Færeyja til föðurins og móðirin fylgir honum á
flugvöllinn án þess að hún nái að stynja upp orði, beinir að drengnum
myndavél og smellir af. Þau sjást ekki í tíu ár.
Andlit verður upp frá þessu saga um hafnanir. Um það hvernig Gull-
brandur hafnar skóla, samfélagi og valdi og er jafn ósnortinn af sukkinu
og ruglinu sem fram fer allt í kringum hann í uppvextinum. Hann upplifir
nánast öll samskipti við annað fólk sem valdbeitingu yfirvalds sem ber að
varast. Um síðir fer sagan æ meir að snúast um það hvernig hann haslar
sér völl sem rithöfundur og nánast eins og safnar höfnunum frá bókafor-
lögum, gleypir í sig viðurkenningarskort bókmenntastofnunarinnar - uns
hann kemst til þroska, finnur loksins sitt samfélag - sitt heima - í hópi
neðanjarðarskálda og sjálfsútgáfuhöfunda. En um leið á hann í vændum
að fyrsta skáldsaga hans er að koma út hjá bókaforlagi. Með öðrum
orðum: í lok sögunnar hefur hann loksins fundið samfélag þar sem
honum finnst hann tilheyra en er jafnframt og um leið að missa tengslin
við það sama samfélag, sviptur höfhun bókmenntastofnunarinnar.
4
Drengurinn í sögu Þráins Bertelssonar, Einhvers konar ég, hafnar ekki
samfélagi - en honum hlotnast það ekki. Alla bókina út í gegn er hann að
flytja. Ekki er hann fyrr farinn að festa yndi á einhverjum stað en hann er
rifinn þar upp til að flytja í nýjan stað til að standa í nýjum barnastyrj-
öldum. Móðir hans á við geðveiki að stríða og er vistuð á Kleppi og hann
fylgir föður sínum, rosknum trésmið sem fer um og smíðar þar sem
verkefni bjóðast og reynir að annast drenginn sinn. fslenskar bókmenntir
eiga margar fallegar lýsingar á móðurinni, og svo er einnig hér: Þráinn
lýsir stopulum kynnum af móður sinni (sem hann kynntist aldrei „eins
og hún var í raun og veru“) af nærfærni og blíðu - en mér er til efs að
íslenskar bókmenntir eigi margar lýsingar á feðrum og sambandi föður
og sonar sem taki fram lýsingunni hér. Manni vefst tunga um tönn þegar
maður á að lýsa í hverju fegurð þessa sambands er fólgin: kannski hvernig
þeir tala saman, eða hvernig þeir þjarka - hvernig þeir leitast við að gleðja
hvor annan, hvernig þeir reyna að líta eftir hvor öðrum. Þeir eru alltaf
56
TMM 2004 • 3