Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Page 101
Menningarvettvangurinn
númer 18 þaðan. Hann fór fyrst alla leið vestur í Hamraborg og svo sem leið lá
austur í Lindir. Ferðafélagar mínir langleiðina voru tveir, karl og kona af þeirri
tegund sem stundum er kölluð þroskaheft. Þau voru ekki heftari en svo að þau
spjölluðu um allt milli himins og jarðar alla leiðina, hlógu, skríktu og skemmtu
sér - og mér.
Þegar ég heimsótti mann á Hrafnistu í Hafnarfirði vissi ég ekki um vagn 41
og gekk frá Hafnarfjarðarveginum. Þegar ég ætlaði sömu leið til baka varð vagn-
inn fyrir mér og ég hoppaði upp í hann til að komast út á veg. En bílstjórinn
taldi mig á að fara með sér alla leið í Fjörðinn og sagði að ég hefði gaman af því.
Það var laukrétt hjá honum. Við ókum um hverfi Hafnarfjarðar sem ég hafði
aldrei séð fyrr. Dagurinn var unaðslegur og við ókum um götur með stæðilegum
glæsihýsum á báðar hendur, léttklædd börn léku sér í vel hirtum görðum og
konur röbbuðu saman yfir barnavögnum. Þetta var eins og að vera annars
staðar.
Þegar ég vakti máls á hrifningu minni og undrun við bílstjórann sagði hann
mér á móti að við værum skyld - en að vísu ekki samkvæmt kirkjubókum. Afi
hans og afi minn væru bræður, munurinn bara sá að afi minn hafði eignast
föður minn í löggiltu hjónabandi en afi hans hafði aldrei viðurkennt faðernið á
föður hans. Sem allir vissu þó að var tilfellið. Altént mæltumst við til skyldleika,
bílstjórinn og ég, og fór hið besta á með okkur - enda afar okkar báðir löngu
horfnir yfir móðuna miklu.
Segið þið svo að það sé ekki gaman að ferðast í strætó.
Ljóðrœn viðbrögð
Ljóð Hannesar Péturssonar í síðasta hefti TMM kallaði fram ljóðrænt svar frá
Árna Björnssyni lækni. Hann skrifar: „Ég kalla þetta lokaflækju, ekki vegna þess
að ég ætli að hætta að flækja orðum, heldur af tilefninu sem kvæði Hannesar
gefur:
Hvað gagnar oss
sem erum að kveðja
viskan
sem við sugum
úr sjóði andans
eða verðmætin
sem við söfnuðum
í sveita langra vinnudaga.
Við hverfum og gleymumst
og allt safnið
hverfur og gleymist
í tímans endalausu rás.
Sálir okkar og líkamir
blandast í moldinni
sem er lokaathvarfið.
TMM 2004 • 3
99