Þjóðmál - 01.09.2018, Qupperneq 23
ÞJÓÐMÁL Haust 2018 21
Almenningur átti ekki annan kost en að
treysta því að kjörnir fulltrúar á þingi gættu
hagsmuna hans. Erlendir kröfuhafar stóðu
ekki í þeim sporum. Þeir völdu þá leið að
kaupa þjónustu allra ráðgjafa sem voru á
lausu. Heildarumfang þrotabúa bankanna
var yfir 3.000 milljarðar króna. Hrægamma
sjóðirnir eru gerðir upp á 15% vöxtum og því
var fórnarkostnaður af því að vera fastur með
fjármagn á Íslandi yfir 450 milljarðar á ári. Það
var því hagkvæmt að verja tugum milljarða í
ráðgjafa til þess að vinna að því kröfuhafarnir
fengju fjármagnið sem fyrst í hendur.
Hrægammasjóðirnir hafa leikið þennan leik
oft áður: „Einfaldasta leiðin til að fá kerfið
með sér er að kaupa það,“ er leiðarstef þeirra.
Embættis og stjórnmálamenn fengu engan
frið fyrir innlendum ráðgjöfum kröfuhafanna,
þar sem hver skýrslan rak aðra og nýtt
lögfræð iálit birtist í hverri viku. Allt var gert
til að reyna að koma fjármagninu úr landi og
hrifsa til sín þann takmarkaða gjaldeyri sem
var til í landinu af borðinu, þannig að
almenningur sæti eftir gjaldeyrislaus.
Almanna tenglar rituðu greinar í blöð og
fengu málpípur eins og Vilhjálm Þorsteins
son, þáverandi gjaldkera Samfylkingar, til að
rugla umræðuna. Fjöldi Íslendinga efnaðist
vel á slíkum ráðgjafastörfum.
Staðan var einföld: Það átti enginn að hafa
réttindi umfram aðra. Umræðan var hins
vegar sveigð í þá átt, svipað og í Icesave, að
við þyrftum að axla ábyrgð, kröfurnar væru
forgangskröfur og að eina leiðin væri að
afgreiða hrunið með digrum tékka með
ríkisábyrgð til þess að geta haldið áfram. Ef
þetta hefði orðið niðurstaðan væru lífskjör
á Íslandi ekki nálæg því sem nú er og við
værum ekki enn komin út úr kreppunni.
Í kosningum 2013 steig Sigmundur Davíð
Gunnlaugsson fram og hampaði réttum
hagsmunum en úrtölur embættismanna,
hagfræðiprófessora og annarra voru sláandi.
Sem betur fer hafði sjálfstraust aukist frá því
að Icesave var hafnað og því var tekið til við
að kanna hver raunverulega staðan væri.
Hvaða gjaldeyrir væri í landinu og hvernig
væri mögulega hægt að skipta honum svo að
ekki væri brotið á rétti neins.
Ég skrifaði fjölmargar greinar á árunum 2012
2016 um þessi mál og sagði að hreinlegast
væri að setja föllnu bankana í þrot. Ekki ætti
að taka fram fyrir hendurnar á löggjöfinni
með því að íslenska ríkið færi í sérstaka
nauðasamninga við þrotabúin. Eðlilegast
væri að setja búin í þrot; láta mál fara sína
hefðbundnu og lögbundnu leið.
Við þrotameðferð er öllum gjaldeyri skipt yfir
í krónur og þar með mátti tryggja að kröfu
hafar stæðu jafnfætis íslenskum almenningi.
Allur gjaldeyrir yrði þá hjá Seðlabankanum,
en almenningur og fyrirtæki voru skilaskyld,
en slitabúin ekki. Ég keypti kröfur á föllnu
bankana og fór með þær í héraðsdóm til að
knýja bankana í þrot, enda væri fullreynt með
slitastjórnir sem höfðu litlu áorkað í yfir fimm
ár. Gjaldþrotaleiðin setti pressu á slitastjórnir
og kröfuhafa, enda fór það svo að þau
borguðu jafnan upp kröfurnar sem ég kom
með í dómstóla, til að hindra efnislega
meðferð málsins. Ég hvatti því lífeyrissjóði
og aðra stóra kröfuhafa til að fylgja fordæmi
mínu. Áður en til þess kom höfðu kröfuhafar
gert nauðasamninga við ríkið.
Niðurstaðan varð að lokum viðunandi. Kröfu
hafar skildu hátt í 700 milljarða króna eftir
í landinu en högnuðust engu að síður vel
flestir á viðskiptum sínum. Ísland gat greitt
niður skuldir og valið beinu brautina. Við
sluppum þarna með skrekkinn.
Fyrir Íslendinga var engin ástæða til þess að vera hnípinn eða lítill í sér
í samskiptum við kröfuhafa. Allir töpuðu við efnahagsáfallið.