Þjóðmál - 01.09.2018, Page 36

Þjóðmál - 01.09.2018, Page 36
34 ÞJÓÐMÁL Haust 2018 Holland í fremstu röð Holland mælist meðal efstu þjóða í PISA­ könnunum, jafnvel ofar en fyrirheitna landið Finnland. Í Hollandi er löng hefð fyrir einkareknum skólum, en um 70% allra grunnskólabarna sækja nám í sjálfstæðum skólum. Starfræktir eru margs konar skólar á grunnskólastigi og réttur manna til að stofna skóla hefur þótt afar mikilvægur. Um þann rétt er sérstaklega fjallað í stjórnarskrá landsins. Hefur stjórnarskrárákvæðið tryggt að allir skólar njóti jafnræðis í fjármögnun af hálfu hins opinbera. Grunnskólar í Hollandi innheimta engin skólagjöld, óháð rekstrarformi. Þannig er foreldrum af ólíkum efnahag tryggt val milli opinberra skóla og einkaskóla. Með jöfnum opinberum framlögum í bæði kerfi má jafna aðstöðumun barna – þannig fá öll börn jöfn tækifæri til að sækja ólíka skóla óháð efnahag foreldra. Sjálfstæðir skólar í Hollandi hafa víða vakið athygli fyrir framúrskarandi menntun og góðan rekstur. Skólarnir keppa um nemendur og hvatinn til framfara er mikill. Ein helsta ástæðan þykir sú að skólarnir búa við meiri sveigjanleika í skólastarfi og byggja á nánari samskiptum við foreldra. Hollenska skóla­ kerfið er gott dæmi þess að aukið valfrelsi og meiri samkeppni í skólamálum leiðir til árangurs. Jöfn tækifæri Rekstrarumhverfi sjálfstæðra skóla hérlendis er erfitt. Það er augljóst, enda opinber fram­ lög til sjálfstæðra skóla almennt takmörkuð við 75% af framlögum til bæjarrekinna skóla. Innheimta skólagjalda bætir ekki upp þennan fjárhagslega mismun. Auk þess getur innheimta skólagjalda gert nemendahópinn einsleitan, enda ekki öllum kleift að greiða með börnum sínum skólagjöld. Börn efnameiri foreldra eiga nú aukin tækifæri til að velja milli ólíkra skóla hérlendis. Þannig ýtir núverandi fyrirkomulag, sem síður styður við einkarekstur í skólakerfinu, enn frekar undir stéttaskiptingu meðal barna. Það er réttlætismál að tryggja jöfn opinber framlög með hverju barni í skólakerfinu, óháð rekstrarformi þess skóla sem um ræðir. Þannig kæmust sjálfstætt starfandi leik­ og grunnskólar hjá innheimtu skólagjalda. Þannig mætti tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þeirrar menntunar sem býðst, óháð efnahag foreldra. Frelsi og val Mikilvægt er að tryggja frelsi og val í skóla­ málum. Lykilforsenda valfrelsis er fjölbreyttara rekstrarform. Þannig skapast svigrúm til framþróunar og tækifæri til nýsköpunar. Það hefur sýnt sig að menntakerfi sem veitir kennurum og skólastjórnendum aukið sjálf­ stæði skilar betur undirbúnum nemendum. Eins sýna rannsóknir að sjálfstæðir skólar veita stjórnendum og kennurum gjarnan aukið frelsi, svigrúm og sjálfstæði í starfi. Skólarnir bjóða jafnan hærri laun, meiri hlunnindi og aukið faglegt frelsi – enda mælist starfsánægja gjarnan meiri. Við þurfum aukið valfrelsi foreldra og tryggari starfsgrundvöll fyrir einkarekna skóla. Einkaframtak í skólakerfinu ýtir undir fram­ farir og nýsköpun – og stuðlar um leið að aukinni fjölbreytni öllum til heilla. Niðurlag Íslensku skólakerfi er vandi á höndum. Við stöndum ekki nægilega sterk í alþjóðlegum samanburði. Námsárangur við lok grunnskóla er slakur og menntakerfið hefur brugðist í undirbúningi fyrir síðari stig skólagöngu. Við stöndum á tímamótum. Eitthvað þarf að breytast. Mikilvægt er að hefja umræðu um ólík rekstrarform og tækifærin í hinu sjálfsprottna. Svo stuðla megi að aukinni fjölbreytni og fjölgun ólíkra valkosta þarf að styðja betur við einkaframtakið. Ýta þarf undir nýbreytni og framþróun – það verður lykill að árangri. Höfundur er borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.