Þjóðmál - 01.09.2018, Side 93
ÞJÓÐMÁL Haust 2018 91
Hann taldi hægt að auka jöfnuð, en njóta
samt kosta markaðsbúskapar, með því að
jarðnæði væri allt í almannaeigu, og til leigu,
en vörur gengju kaupum og sölu á markaði.
Ráðin gegn stöðnun og ójöfnuði sem Posner
og Weyl benda á snúast um að vinna gegn
markaðsbrestum. Þeir segja að þessir brestir
stafi af því að eignir eins og jarðnæði,
náttúruauðlindir og fyrirtæki séu ekki nógu
fljótandi og lendi því ekki nógu greiðlega í
höndum þeirra sem nýti þær best.
Þeir leggja til skipan sem líkja má við stöðug
uppboð á hluta þess sem menn geta nú
haldið fast í sem séreign. Róttækni þeirra er
þó hófleg að því leyti að þeir vilja að byrjað
sé á að prófa þetta í smáum stíl. Um sumt
minna þessar tillögur á eina gerð andófs gegn
kvótakerfinu í sjávarútvegi, sem nokkuð hefur
borið á hér á landi, nefnilega hugmyndir um
tíð uppboð á fiskveiðiheimildum.
Skorður við eignarrétti
og ráð við fákeppni
Posner og Weyl taka undir það með hægri
mönnum að styrkja þurfi markaðsbúskap og
koma honum víðar við. En þeir finna að því
að hægrisinnaðir flokkar beiti sér einatt gegn
breytingum sem þurfi að gera til að draga úr
fákeppni, einokun og markaðsbrestum. Til að
bæta úr þessu leggja þeir til að vissar eignir
verðleggi eigendur sjálfir og greiði skatt í
hlutfalli við hvaða verðmiða þeir setja á þær.
Eignir sem svo eru verðlagðar skulu ekki vera
fastar í hendi heldur skal mönnum skylt að
selja þær við því verði sem þeir telja fram.
Eignamenn geta þá ekki vikið sér undan
skattheimtu nema lækka verð eigna sinna svo
að hætta sé á að aðrir kaupi þær á undirverði.
Með þessu telja þeir hægt að sameina annars
vegar dreifstýringu og kosti markaða og hins
vegar félagslega eign á auðlindum og landi, þar
sem hver sem er má kaupa eignir sem handhafi
verðleggur lágt og enginn getur verðlagt eignir
hátt nema borga meira í sameiginlega sjóði.
Slíka skipan segja þeir verða til þess að eignir
sem skila litlum arði lendi hjá nýjum eigendum
og hagvöxtur aukist fyrir vikið.
Ef þetta kerfi yrði tekið upp í íslenskum
sjávarútvegi mættu handhafar kvóta setja
á hann hvaða verð sem er og borga skatt í
hlutfalli við það. Þeir sem verðleggja kvóta
sinn lágt, og segjast þar með ekki hafa efni á
að borga nema lítinn skatt, verða þá að una
því að hver sem telur sig geta staðið undir
hærri sköttum geti keypt kvótann af þeim á
því lága verði sem þeir tíunda. Nýr kaupandi
getur svo verðlagt eign sína hátt til að halda
henni en verður fyrir vikið að borga hærri
skatt. Þetta virkar nánast eins og auðlindir
séu til leigu og leiguverð sé ákveðið og sífellt
endurskoðað með uppboðum.
Posner og Weyl taka vitaskuld önnur dæmi
en fiskveiðikvóta en þeir útfæra hugmyndir
sínar í nægilegum smáatriðum til að auðvelt
sé að heimfæra þær á ólík svið. Eitt lykilatriði
er að þeir segja að handhafar eigna eigi að
mega verðleggja þær í kippum. Þannig mætti
útgerð setja eitt verð á bæði skip og kvóta
til að koma í veg fyrir að nokkur gæti leyst til
sín annað af þessu með þeim afleiðingum
að eigandi sæti uppi með hitt og gæti ekki
nýtt það. Þeir orða þetta svo að við þá skipan
sem þeir leggja til þurfi engir að una því að
keyptur sé af þeim annar skórinn og þeir
sitji uppi með hinn (bls. 64). Í stuttu máli má
segja að róttæknin í bókinni felist í því að auka
markaðsvæðingu og dreifstýringu en takmarka
um leið eignarrétt. Það verður ekkert mið
stjórnarvald sem verðleggur eignir manna.
Þeir gera það hver fyrir sig. Á móti kemur að
enginn getur neitað að selja eign sína.
Annað ráð sem þeir leggja til byggist líka á því
að setja eignarrétti skorður. Þetta ráð er að
takmarka möguleika fjárfesta og sjóða til að
eiga hlut í tveimur eða fleiri fyrirtækjum í sömu
grein atvinnulífs. Posner og Weyl segja að af
því leiði í raun fákeppni þar sem nokkrir stórir
fjárfestar eiga til að mynda í mörgum verslana
keðjum eða mörgum flugfélögum. Eigendurnir
hafa þá meiri hag af að halda launum niðri en
að etja fyrirtækjunum saman í samkeppni. Úr
verður hagkerfi þar sem topparnir eru öruggir
með sitt og þurfa lítt að óttast samkeppni en
kjör verkafólks versna (bls. 201).