Þjóðmál - 01.12.2019, Page 46

Þjóðmál - 01.12.2019, Page 46
44 ÞJÓÐMÁL Vetur 2019 Breyta þarf fyrirkomulagi evrópsks samstarfs Evrópusambandið þarf umfram allt að ná betra jafnvægi milli þjóðríkisins og „bræðslu­ pottsins“. Sú leið, sem farin var með Einingar­ lögum Evrópu og Maastricht­sáttmálanum, að fela framkvæmdastjórn ESB í jafn ríkum mæli að stýra innri markaðnum og takmarka rétt aðildarríkjanna til að beita neitunarvaldi, var óþörf. Allt eins hefði verið hægt að byggja á öðru módeli, þar sem aðildarríkin sjálf lékju stærra hlutverk, t.a.m. með gagnkvæmri viðurkenningu á stöðlum og samstarfi eins og því, sem fer fram á vettvangi OECD, þar sem sérfræðingar frá stofnunum aðildar­ ríkjanna koma saman í fagnefndum og vinna saman að þróun staðla og annarra alþjóðlegra viðmiða. Jafnframt var óþarfi að taka upp jafn ósveigjanlegar reglur og felast í fjórfrelsinu; í öllu falli hefði þurft að endur­ skoða þær frá grunni fyrir stækkunina til austurs. Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um áframhaldandi aðild að ESB reyndi breska stjórnin raunar að telja önnur aðildarríki á að leyfa sér að setja fjórfrelsinu ákveðin takmörk, en þeirri beiðni var ekki vel tekið. Yfirvofandi útganga Bretlands hefði getað orðið Evrópubúum tækifæri til að staldra við og velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að hugsa málin upp á nýtt. Í stað þess hefur hún styrkt marga í misráðinni trú á ríkjandi hugmyndafræði. Hvað Ísland varðar virðist því hæpið að ganga í sambandið á grundvelli núverandi fyrirkomulags. Evrópskt samstarf verður að byggjast á þjóðríkjunum en ekki á miðstýrðu sérfræðingaveldi og markaðsnauðhyggju, sem takmarkar getu þeirra til að koma til móts við væntingar þegnanna. Mikilvægt er að Evrópusamruninn hætti að grafa undan þjóðríkinu og hefji þess í stað að styrkja það og gera að hornsteini evrópskrar samvinnu. En meðan Evrópubúar eru staðráðnir í að halda áfram á núverandi braut; meðan gallað myntbandalag sviptir aðildarríkin nauðsyn­ legum tækjum til að jafna út sveiflur, mæta ytri áföllum og tryggja lágmarksvelferð; er líklegt að hinum „popúlísku“ stjórnmálaöflum vaxi ásmegin. Viðhorfsbreytingar er þörf því annað og betra fyrirkomulag evrópskrar sam­ vinnu er bæði mögulegt og æskilegt. Ríki eru ólík og þurfa að geta tekið þátt í evrópsku samstarfi á sínum eigin forsendum. Færi svo að sambandið þróaðist í þá átt að stuðla að almennri velferð innan ramma þjóðríkisins gætu skapast sterkari forsendur til að endurskoða afstöðu til aðildar. Höfundur er fyrrverandi nemandi franska stjórnsýsluskólans.

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.