Þjóðmál - 01.12.2019, Blaðsíða 44
42 ÞJÓÐMÁL Vetur 2019
Krónan ekki ónothæf
Útfærsla myntbandalagsins var því gölluð frá
upphafi, eins og síðar hefur komið greinilega
í ljós, og því væri ekki hyggilegt að taka upp
evru á Íslandi að svo stöddu. Þó eru smáríki
auðvitað oft í þeirri stöðu að þurfa að velja
á milli mismunandi óákjósanlegra valkosta
því krónan er auðvitað ekki gallalaus heldur.
Óþarflega háir raunvextir, tilhneiging til
verðbólgu og hærra verðlag rýra lífsgæði og
óstöðugt gengi gerir fyrirtækjum erfiðara
fyrir að skipuleggja fjárfestingar fram í tímann.
Hærri verðbólgu má að hluta til rekja til óvenju
ósamhverfra viðbragða við gengissveiflum,
m.a. vegna minni samkeppni en æskilegt
væri víða í hagkerfinu. Líklegt er að raunvextir
á Íslandi þurfi alltaf að vera eitthvað hærri en
í nágrannaríkjunum til að vega upp á móti
þeirri gengisáhættu sem tengist krónunni.
Þessi vaxtamunur milli Íslands og nágranna
ríkjanna getur gert íslenskum fyrirtækjum
erfiðara fyrir í alþjóðlegri samkeppni.
Þó er íslenska hagkerfið þannig byggt
upp, að stór hluti atvinnulífsins byggist á
stað bundnum þáttum: stóriðjan byggist á
ódýrri raforku, fiskveiðarnar á fiskstofnum í
efnahags lögsögunni, ferðamannaiðnaðurinn
á íslenskri náttúru og flugiðnaðurinn á hag
felldri legu landsins á milli Evrópu og Ameríku.
Að auki geta stærri útflutningsfyrirtæki
almennt fjármagnað sig á alþjóðlegum
fjármálamarkaði. Vaxtamunurinn hefur því
líklega ekki jafn afgerandi áhrif á samkeppnis
stöðu íslenskra fyrirtækja og ætla mætti. Á
móti kemur að þau fyrirtæki sem eru fyrst og
fremst á innlendum markaði, sem og
sprota fyrirtæki, þurfa að sætta sig við
hærri raunvexti og velta þeim að mestu út í
verðlagið. Þó ber að hafa í huga að upptaka
evru er engan veginn trygging fyrir því að
vextir lækki til jafns við það sem lægst gerist
á evrusvæðinu; vextir eru talsvert breytilegir
milli landa.
Ólíkt því sem sums staðar er haldið fram er
það því ekkert náttúrulögmál að lítill gjald
miðill hljóti sjálfkrafa að vera ónothæfur.
Vandi krónunnar á sér ákveðnar orsakir, m.a.
uppsafnað vantraust vegna þess að hagstjórn
í landinu hefur lengi verið ábótavant. En það
er hægt að endurheimta trúverðugleika og
raunar bendir ýmislegt til þess, að núverandi
aðstæður séu hagstæðar til að rétta stöðu
krónunnar. Þar má nefna tiltölulega hagstæða
ytri stöðu hagkerfisins og betra samkeppnis
umhverfi með aukinni þátttöku erlendra
fyrirtækja á íslenskum markaði. Sú staðreynd
að gengið hefur haldist nokkuð stöðugt þrátt
fyrir nýleg áföll í efnahagslífinu bendir til að
trúverðugleiki hagstjórnarinnar hafi aukist.
Sú reynsla sem hlaust af setningu fjármagns
haftanna hefur aukið möguleika íslenskra
yfirvalda til inngripa á gjaldeyrismarkaði ef
þörf krefur. Með frekari aðgerðum ætti því að
vera hægt að undirbyggja traust á gjaldmiðli
num, auka stöðugleika og lækka raunvexti.
Mikilvægasta verkefnið hlýtur að vera að
endurskipuleggja og minnka bankakerfið
enn frekar og koma í veg fyrir að það kyndi
undir óstöðugleika, eins og gerðist fyrir hrun.
Þá er einnig mikilvægt að takmarka flæði
skammtímafjármagns inn í hagkerfið, sem
verið getur mikil uppspretta óstöðugleika
fyrir jafn lítinn gjaldmiðil og krónuna. Skoða
mætti þann möguleika að taka upp skatt á
ákveðnar fjármagnsfærslur til og frá landinu,
eins og Frakkland og Bretland hafa að hluta
til þegar gert. Slíkt fyrirkomulag mundi hefta
innflæði fjármagns í leit að hærri skammtíma
ávöxtun og gefa stjórnvöldum örlítið meira
svigrúm til að stuðla að innra jafnvægi í hag
kerfinu. Til þess að gera viðbrögð krónunnar
við gengissveiflum samhverfari væri loks
æskilegt að stuðla að samkeppni með því að
auðvelda einstaklingum að stofna og reka
fyrirtæki og halda uppi virku samkeppnis
eftirliti.