Gripla - 2021, Blaðsíða 139
137
verið prjónað inn í predikunarramma sem ekki svarar til neins í formála
Adonias sögu.
Sverrir Tómasson, sem gert hefur leit að frumtextunum, segist ekki
hafa fundið sama afbrigði í prentuðum útgáfum af latneskum dæmisögum
Esóps.6 Eins og kunnugt er hefur þess háttar sagnaefni gjarnan ferðast á
milli mála og þá stundum hafið ferðina í Austurlöndum en síðar náð til
Vesturlanda þar sem sögurnar eru varðveittar á klassísku málunum jafnt sem
þjóðtungum. Höfundur Adonias sögu hefur sjálfur orð á þessu margtyngi
safnaefnisins:
<M>argir fyrri menn og fróðir meistarar leituðu á marga vega
listir ok fræði saman at setja eptirkomandi mönnum til minnis
ok skemmtanar, ok margir af þeim – þeir menn sem fræddir vóru
mörgum tungum – fóru víð<a> um heiminn fyrir sakir forvitni at
verða vísir þeirra hluta ok hinna stæ<r>stu atburða sem í því landi
sérhverju hafa gjörz, ok eptir þeirra frásögn hafa hverir sem einir
þær sömu fræðisögur fært til sinnar tungu, en sumir sett í látínu
ok aukit svó út síðan með meiri fjöld orðanna en í fy<r>stu vóru
framið, ok hafa þar margir á sýnt sína málsnilld.7
Greinilegt er af orðum höfundarins að hann tekur mið af latínu og virðist
vænta þess að mest sé borið í „málsnilld“ eða stíl latínurita. Það er í sam-
ræmi við annað sem við vitum um bækur á Íslandi á ritunartíma Adonias
sögu. Eins notar hann latnesk heiti yfir dæmisögur, fabulas og fabula, í
dæmisögum sínum. Því er ekki óeðlilegt að hugsa sér að þessi óþekkti
íslenski klerkur hafi kynnst dæmisögunum tveimur á latínumáli.
En hvar var helst að finna dæmisögur kenndar við Esóp um hrafn og ref
eða úlf og lamb í latneskum bókum á miðöldum? Skólamenn á miðöldum
voru afar hrifnir af latneskum kveðskap og höfðu jafnframt tröllatrú á
utanbókarlærdómi. Að yrkja um kennsluefnið á latínu voru menntavísindi
þess tíma. Af þessum sökum var latnesk málfræðikennsla sett í vers,
svo sem í Doctrinale puerorum eftir Alexander frá Villa-Dei og Grecismus
6 Sverrir Tómasson, „The fræðisaga of Adonias,“ 383; Formálar íslenskra sagnaritara, 294.
7 Late Medieval Icelandic Romances III, útg. Agnete Loth. Editiones Arnamagnæanae B 22
(Kaupmannahöfn: Munksgaard, 1963), 69. Sumt í tilvitnuðum pósti, til að mynda umræðan
um fróða menn á fyrri tíma, minningu, skemmtun og sögur á mörgum tungum, minnir á
formála Strengleika og gæti verið skrifað undir áhrifum frá honum þótt ótvíræð líkindi orða-
lags séu torfundin.
TVÆ R DÆ MISÖ GUR ESÓ PS