Gripla - 2021, Blaðsíða 294
GRIPLA292
eru endurteknar frá og með orðunum „himnanna her“ en nýtt framhald
hefst á orðunum „viska, góðsemd“.
Fyrirmyndin er tenórröddin úr hollensku sönglagi í fjórum röddum,
Godt es mijn licht. Lagið birtist á prenti í þremur söngbókum á síðari hluta
16. aldar. Hin fyrsta kom út í Leuven árið 1567, Livre septième des chan-
sons à quatre parties, og átti sá atorkusami nótnaforleggjari Pierre Phalèse
heiður að útgáfunni. Þetta var lítið eitt breytt endurprentun bókar sem
fyrst kom á markað árið 1560 og naut mikillar hylli eins og sjá má á því að
hún var gefin út í nýju upplagi um 30 sinnum í Niðurlöndum næstu 100
árin.7 Lagið Godt es mijn licht er þó aðeins að finna í útgáfunni 1567. Það
var aftur prentað í Nürnberg 1568 (við þýskan texta, Gott ist mein liecht) og
í Leuven og Antwerpen 1572. Lagið er einnig að finna í að minnsta kosti
þremur handritum. Það var auk þess útsett fyrir hljóðfæri, meðal annars
einleikslútu.8 Í þýska prentinu frá 1568 er höfundur ekki nafngreindur,
en í útgáfunum 1567 og 1572 er lagið eignað Jacobus Clemens (non Papa),
flæmsku tónskáldi sem uppi var á árunum 1510/15–1555/56. Hann stýrði
kór dómkirkjunnar í Brugge, þ.e. Sint-Donaaskathedraal, sem lögð var í
rústir árið 1799 í óeirðum í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar, og hann
var einnig söngvari og tónskáld við Maríuregluna í ’s-Hertogenbosch.9
Clemens non Papa, eins og hann var iðulega nefndur, var einn dáðasti tón-
höfundur Niðurlanda um miðja 16. öld og verk hans bárust víða um álfuna
á skömmum tíma.10
7 Anne Tatnall Gross, „A Musicological Puzzle: Scrambled Editions of the Phalèse “Livre
septième” in Two London Libraries,“ Fontes Artis Musicae 40/4 (1993): 284.
8 Schöner ausserlessner deutscher Psalm, und anderer künstlicher Moteten und geistlichen Lieder
XX (Nürnberg: Ulrich Neuber, 1568/RISM 156811); Een duytsch Musyck Boeck, daer inne
begrepen syn vele schoone Liedekens met IIII. Met V. ede VI. partijen (Leuven, Pierre Phalèse;
Antwerpen, Jean Bellère, 1572/RISM 157211). Sjá einnig Henri Vanhulst, Catalogue des
Éditions de musique publiées à Louvain par Pierre Phalèse et ses fils 1545–1578 (Brussel: Palais
des Académies, 1990). Handritin eru nefnd í Norbert Böker-Heil, Harald Heckmann og
Ilse Kindermann, ritstj., Das Tenorlied. Mehrstimmigen Lieder in deutschen Quellen 1450–
1580, 1–3 (Kassel: Bärenreiter, 1979–86).
9 Um Clemens sjá nánar Willem Elders o.fl., „Clemens non Papa, Jacobus,“ The New Grove
Dictionary of Music and Musicians 6, ritstj. Stanley Sadie, 2. útg. (London: Macmillan,
2001), 28–29; Thomas Schmidt-Beste, „Clemens (non Papa),“ Die Musik in Geschichte und
Gegenwart. Allgemeine Encyclopädie der Musik, Personenteil 4, ritstj. Ludwig Finscher, 2.
útg. (Kassel: Bärenreiter-Verlag, 1994–2007), 1218–29.
10 Eric Jas, „Introduction,“ Beyond Contemporary Fame. Reassessing the Art of Clemens non Papa
and Thomas Crecquillon, ritstj. Eric Jas (Turnhout: Brepols, 2005), 9.