Gripla - 2021, Blaðsíða 148
GRIPLA146
Orðið „skiptingur“ er hér valið til þess að ríma á móti „vitringur“ en aðal-
merking þess er bjáni eða fífl („fjols, tumpe, idiot,“ skv. fornmálsorðabókinni
í Kaupmannahöfn). Eins er þýðing fyrstu línunnar frjálslega gerð af því að
þýðandinn vill stuðla saman „maður“ og „margir“. Ég hef ekki fundið þessi
sömu skrifaravers í öðrum íslenskum handritum en AM 732 b 4to en þau
eru víða til í erlendum handritum og kunna að hafa staðið í fleiri íslenskum
skinnbókum sem nú eru glataðar. Nauðsynlegt er að hafa í huga við slíkar
athuganir að næstum öll íslensk latínurit glötuðust eftir siðaskiptin.
Dýraföblur Esóps voru allt frá fornöld notaðar sem viðmið um skáld-
skap í sögum sem ekki skyldi efast um að væru hreinn tilbúningur því allir
vita að skynlausar skepnur tala ekki mannamál. Suðrænar fornaldar sögur
eru í reynd álíka uppspuni og með því að stilla þessum tveimur bók-
menntagreinum hlið við hlið sýnir höfundur Adonias sögu að fornaldar-
sögurnar átti að túlka siðferðilega ekki síður en dæmisögur Esóps. Til var
heldur magnaðri grein miðaldabókmennta, dýrlingasögur, sem miðalda-
menn töldu sjálfir ekki til skáldskapar (fabulae), þótt siðskiptafrömuðir
á 16. öld gerðu svo. Þessi ólíka sýn á dýrlingasögur reyndist íslenskum
latínubókum dýrkeypt. Í Kirkjuordinansíu Kristjáns III, sem aukin var af
einum helsta samstarfsmanni Lúthers, Johannes Bugenhagen (†1558), og
samþykkt af Lúther sjálfum, er munkum og reglubræðrum ráðið frá því
að lesa dýrlingasögur, þótt slíkur lestur sé ekki bannaður, „ef einhver vill
sóa tíma sínum“ (si qvis tempus perdere vult), ekki frekar en lestur á „dæmi-
sögum Esóps“ (fabulas Æsopi), sem þó „eru lærðar“ (eruditionem habent).
Ástæðan fyrir þessari jákvæðu sýn á dæmisögur Esóps er sú að enginn
þarf að trúa þeim en samkvæmt Bugenhagen notuðu munkarnir dýrlinga-
sögurnar, sem kallaðar eru „mesta þvæla og fábyljur“ (inemptissimae fabulae)
og „hafsjór lygi“ (maria mendaciorum), til þess að útbreiða hjátrú.23 Hatur
siðskiptamanna á dýrlingasögum leiddi til gjöreyðingar latneskra bóka á
Norðurlöndum, ekki aðeins dýrlingasagna á latínu heldur nánast alls efnis
á latínu sem fyrirfannst hér á landi.24 Það er því ekki á hverjum degi sem
finnast leifar tveggja latneskra bóka íslenskra sem virðast hafa verið nýttar
í sögutilbúning á norrænu.
23 DI X, 312.
24 Um leifar íslenskra latínubóka, sjá Guðvarð Má Gunnlaugsson, „Latin fragments related
to Iceland,“ Nordic Latin manuscript fragments: The destruction and reconstruction of Medieval
books, ritstj. Åslaug Ommundsen & Tuomas Heikkilä (London: Routledge), 2017.