Gripla - 2021, Blaðsíða 230
GRIPLA228
hafa ekki endilega alltaf nærumhverfið í forgrunni og hefur þetta orðið til
þess að efnið í þeim þykir misfýsilegt til rannsókna og útgáfu eftir tíma og
staðsetningu atburða.5
Þegar annálar eru lesnir hver fyrir sig er áberandi einkenni margra
þeirra að í þeim úir og grúir af óhugnaði: Pestdauðir uppvakningar, fóstur
sem gráta í móðurkviði, kýr sem fæða meybörn, messuvín sem verður
skyndilega blóðugt á lit við útdeilingu og dreyrrauður himinn sem boðar
óár og dauða. Þótt eldri fræðimenn hafi afgreitt slíkt efni með skýringum
um „hjátrúarringl“ vaknar spurning um hvort annálsformið hafi náð til
fleiri þátta en skráningar helstu staðreynda hvers árs fyrir sig.6
Þar sem spurningin um áreiðanleika hefur yfirleitt verið í forgrunni
hefur tiltölulega lítið verið fjallað um annálinn sem frásagnarform.7 Rými
gefst sjaldan til þess að rýna djúpt í uppbyggingu einstakra frásagna í
annálum eða kanna hlutverk annála og annálamenningar á Íslandi. Í síðasta
hefti Griplu kom út vönduð athugun Philip Lavenders á annálsgrein í
Oddverjaannál um konunginn Timur (1336–1405) og áhrif erlendrar
sagnaritunar um Timur í íslenskum bókmenntum.8 Eins og í grein Lav-
enders eru efnistökin hér þrengd í eina annálsgrein en viðfangsefnið virðist
við fyrstu sýn alfarið um innlent málefni.
Sérstaklega óhugnanleg annálsgrein í annál Björns Jónssonar á Skarðsá
(1574–1655) lýsir því hvernig bóndi á Austurlandi myrðir konu sína árið
1553 eftir að hún veldur dauða sona þeirra. Ætla mætti að annálsgreinin í
5 Hannes Þorsteinsson skrifaði í inngangi sínum að annál Björns Jónssonar á Skarðsá að
allt efni sem ekki varðaði Ísland „hefur orðið að fylgjast með hinu innlenda efni, svo að
annállinn kæmi fram í þeirri mynd, sem höf. hefur við hann skilið“ en það væri „auðvitað
ekkert á þessu að græða að neinu leyti.“ ÍA I, 34. Ljóst er hins vegar af varðveittum annálum
að annálsformið var mikilvægur vettvangur fyrir umfjöllun um erlend málefni og að skrá
þekkingu um umheiminn og stöðu Íslands innan hans, sbr. Robert Cook, „The Chronica
Carionis in Iceland,“ Opuscula 8 (1985): 226–63. Sjá einnig Oddaannálar og Oddverjaannáll,
Eiríkur Þormóðsson og Guðrún Ása Grímsdóttir bjuggu til prentunar (Reykjavík: Stofnun
Árna Magnússonar á Íslandi, 2003).
6 ÍA I, 35; Þorvaldur Thoroddsen, Landfræðissaga Íslands: hugmyndasaga manna um Ísland,
náttúruskoðun og rannsóknir, fyrr og síðar, 2. bindi (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bók-
menntafjelag, 1892–1904), 2–4.
7 Erika Sigurdson, „The Church in Fourteenth-Century Iceland: Ecclesiastical Administra-
tion, Literacy, and the Formation of an Elite Clerical Identity“ (Doktorsritgerð, University
of Leeds, 2011), 72–73.
8 Philip Lavender, „Timur, ‘The Wrath of God’: An Unknown Source of Oddverjaannáll and
the Vindication of a Tyrant in Ambáles saga and Ambáles rímur,“ Gripla 31 (2020): 125–58.