Gripla - 2021, Blaðsíða 147
145
er uppskrift annars handrits, sem gerð er af skrifara sem virðist ekki hafa
verið jafn vel skiljandi á latínu og höfundur Adonias sögu. Skrifaraversin eru
nefnilega brengluð í fjórum orðum þótt þýðingin sé rétt, miðað við leið-
réttan texta. Á þetta hefur þegar verið bent,18 en það sem ekki hefur verið
sýnt fram á áður er að þessi latnesku vers eru til í íslensku handriti sem ber
sömu sjaldséðu einkennin í uppsetningu latínuversa og Esópsdæmisögur
Anonymus Neveleti í Þjms frag 103, þ.e. að síðustu táknin í hverri línu eru
alltaf dregin til hægri og látin mynda lóðrétta línu.19
AM 732 b 4to er eitt sérkennilegasta handrit sem varðveitt er frá ís-
lenskum miðöldum, sannkallað alfræðihandrit.20 Það er tvítyngt og skrifað
bæði á latínu og norrænu. Í því koma meðal annars fyrir dróttkvæðar vísur
á latínu og það er prýtt níu skýringarteikningum, þar á meðal völundar-
húsi og hringlaga Jórsalakorti, svo aðeins fátt eitt sé talið.21 Handritið
fékk Árni Magnússon í Gaulverjabæ árið 1703 en fleira en eitt bendir til
uppruna á Norðurlandi meðal Benediktsmunka á fyrri hluta 14. aldar.22
Á blaði 5r í þessu handriti er að finna heilan dálk skrifaraversa undir
leónísku hexametri, þar á meðal þessi:
Vir bene vestitus pro vestibus ille peritus
Creditur a mille qvamvis idiota sit ille
Villurnar í AM 593 a 4to eru greinilega gerðar af manni sem ekki gat lesið
úr skriftinni í forritinu því ef hann hefði haft fyrir sér AM 732 b 4to, 5r,
hefði hann ekki brenglað versunum. Hann hefur því lesið vísurnar í miklu
verri uppskrift en þessari. Þýðing höfundar Adonias sögu á versunum
miðast hins vegar við réttan latínutexta, og hann hefur þar af leiðandi þekkt
versin óbrengluð, kannski úr AM 732 b 4to:
Velklæddur maður, þá hyggja þat margir
at hann sé vitringur þó hann sé skiptingur.
18 Sverrir Tómasson, „The fræðisaga of Adonias,“ 382–83; Formálar íslenskra sagnaritara,
293–94.
19 Uppsetningin er rædd og dæmi gefin í Astrid Marner og Gottskálk Jensson, „Seven pieces
of Latin poetry,“ 393–96.
20 Að einhverju leyti sambærilegt efni má finna í GKS 1812 4to og AM 415 4to, auk AM 736
I 4to, sem er tvíblöðungur.
21 Myndir af AM 732 b 4to má skoða á handrit.is.
22 Astrid Marner og Gottskálk Jensson, „Seven pieces of Latin poetry,“ 393–96.
TVÆ R DÆ MISÖ GUR ESÓ PS