Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1929, Blaðsíða 106
meir þyngir vindinn, svo að hann verður til óþæg-
inda, teljum vér stinnings-kalda og strekking, en úr
því að veðrið er orðið svo mikið, að til skemmda
horfir, köllum vér hvassviðri, storm, rok, óstætt veð-
ur o. s. frv. Slík nöfn á veðurhæðinni eru til á öll-
um tungumálum. í veðurskey'um og veðurspám er
orðin föst venja að gefa veðurhæðina til kynna í 13
stigum, sem annaðhvort eru táknuð með tölunum
0—12 eða nefnd með nafni. T. d. er 0 látið merkja
logn en 12 óstætt veður, er oftast veldur stórskaða
á sjó og landi. — Auðkenni þessara vindstiga eru
fyrst ákveðin af Beaufort flotaforingja og miðuð við
hraða og seglburð á herskipum eins og þau gerðust
á fyrra helmingi i9. aldar.
Vindhraðann má mæla með vindmælum, er sýna,
hve marga metra loptstraumurinn berst áfram á
sekúndu. Með því að mæla vindinn samtímis í vind-
stigum á sama stað, má finna þann hraða, sem svar-
ar til hvers vindstigs. — En þess ber að gæta, að
mælirinn segir að eins til um vindhraðann á þeim
stað, sem hann er settur; en maður, sem gizkar á
veðurhæðina, getur farið eftir sýnilegum áhrifum
vindarins á alla hluti, sem hann sér. Hann getur t.
d. horft út um glugga á sjávaröldurnar og gizkað á
veðurhæðina af þvi, hve miklar þær eru. Parf mikla
aðgæzlu, þegar velja skal vindmæli stað, og er betra
engan að hafa, heldur en léiegan eða vitlaust settan.
Fer hér á eftir lýsing á áhrifum vindarins við
hvert stig, bæði á sjó og landi, eftir þvi sem eg tel
sanni næst. Vona eg, að það geti orðið mönnum til
leiðbeiningar, ef þeir þurfa á því að halda að segja
ákveðið um veðurhæð á tilteknum stað og stundu
(t. d. þegar skip strandar). í veðurfregnum er vind-
magnið oft tilgreint í tölum og því nauðsynlegt að
vita, hvað þær þýða i raun og veru.
O Logn (0—0.5 m). Spegilsléttur sjór. Reyk leggur
beint upp. »Varla blaktir hár á höfði«.
(102)