Milli mála - 2022, Blaðsíða 24
MILLI MÁLA
Milli mála 14/1/2022 23
runaland/fæðingarland. Gera má ráð fyrir að fyrrnefnda breytan
sé nákvæmari og ábyggilegri fyrir rannsóknarverkefnið sem hér er
unnið að vegna þess að einstaklingur getur af ýmsum ástæðum hafa
fæðst í öðru landi þar sem hið opinbera mál getur verið það sama og
móðurmál hans eða ekki. Þegar kemur að því að draga saman upp-
lýsingar um þennan hóp þá reynist auðvelt að fá vitneskju um aldur
og kyn innflytjenda hjá Hagstofu Íslands en stofnunin gefur aftur
á móti engar upplýsingar um hjúskaparstöðu, ástæður fyrir búferla-
flutningum, menntun, atvinnu og lengd dvalar eða búsetu. Þá vantar
einnig allar upplýsingar um móðurmál innflytjenda og foreldra
þeirra, eins og áður var vikið að. Til gamans má geta þess að í eldri
lýðfræðimálvísindarannsókn Morenos Fernández og Oteros Roth
(2006) voru sýndar niðurstöður úr greiningu gagna frá ýmsum lönd-
um, m.a. Íslandi. Í þá tíð voru 657 spænskumælandi innflytjendur
í landinu, bæði frá Spáni og spænskumælandi Ameríku. Hér blasir
við að veruleg breyting hefur orðið á fjölda innflytjenda frá spænsku-
mælandi löndum undanfarinn rúman áratug, hann hefur tvöfaldast
miðað við nýlegar tölulegar upplýsingar frá Hagstofu Íslands.
Þá skal nefna hóp annarrar kynslóðar innflytjenda sem hefur
tekist að varðveita móðurmál sitt (MMH2). Þessa einstaklinga má
flokka í efsta færnistig, a.m.k. þegar kemur að munnlegri tjáningu.
Í gögnum Hagstofu Íslands er að finna upplýsingar um börn í leik-
skóla sem hafa annað móðurmál en íslensku. Ef gluggað er í þessar
tölur og tvö ár tekin sem dæmi þá voru árið 1998 30 börn skráð með
spænsku að móðurmáli en árið 2020 voru þau orðin 127. Rétt er að
hafa í huga að það er erfitt að fullyrða nokkuð um færni þessara ein-
staklinga, og gagnstætt því sem gengur og gerist í Svíþjóð er móður-
málskennsla ekki skylda í íslenska skólakerfinu (Emilsson Peskova og
Hanna Ragnarsdóttir 2018, 13). Samtökin Móðurmál, samtök um
tvítyngi, sem voru stofnuð árið 1994, bjóða upp á spænskukennslu
en ekki öll börn sem tala spænsku heima hjá sér sækja tíma hjá sam-
tökunum (Emilsson Peskova 2022).
Undir þriðja hópinn (MMH3) falla þeir spænskumælandi inn-
flytjendur sem hafa íslenskt ríkisfang. Samkvæmt Hagstofu Íslands
trónir Spánn ekki efst á lista yfir upprunaland innflytjenda frá
ERLA ERLENDSDÓTTIR, HÓLMFRÍÐUR GARÐARSDÓTTIR OG NÚRIA JIMÉNEZ