Milli mála - 2022, Blaðsíða 105
MILLI MÁLA
104 Milli mála 14/2/2022
Frásögnin gefur í skyn að það sé eitthvað illt í þessu veðri – „vofa“63 –
sem kemur inn og gerir mikinn usla tveimur dögum síðar þegar Inga
deyr. Hið skæða veður setur því tóninn fyrir framhaldið og segir fyrir
um örlög Ingu og skelfilegt áfall Agnesar þegar hún sér hana látna í
rúminu, blóð út um allt og herbergið „mett[að] af blóðdauni“ (160).
Atriðið í heild sinni endurspeglar hversu mjög fólk á norðlægum
slóðum eins og Íslandi þarf að reiða sig á veðrið og náttúruöflin, og
undirstrikar einnig hversu brothætt líf mannanna er sem mótast af
þessum einangruðu og harðneskjulegu aðstæðum. Þegar vindstrokan
fellir Agnesi samsvarar það þeim afleiðingum sem dauði Ingu
hefur fyrir hana: þessi harmleikur bókstaflega kippir undan henni
fótunum og bindur enda á þá tryggu tilveru sem hún bjó við, því
Björn fósturfaðir hennar ákveður að flytja suður til Reykjavíkur
og yfirgefur hana.64 Þar með verður Agnes ómagi og einstæðingur
„upp á náð sóknarinnar“ (166). Þegar gráti og hrópum Agnesar í
sorginni yfir andláti Ingu er líkt við veðrið er tengingin milli veðurs
og mannlegs hlutskiptis undirstrikuð enn frekar: „Ég ýlfraði eins og
vindurinn úti“ (159).
Frásögnin heldur áfram á svipuðum nótum er Agnes endurupp-
lifir þessa lífsreynslu í draumi og finnst sem hún læðist eftir bæjar-
göngunum og heyri „vindinn ýlfra úti í nóttinni fyrir utan og finnst
ég heyra fósturmóður mína krafsa í hurðina á skemmunni […] og
í gegnum gnauð vindsins held ég mig heyra krafs og síðan nafnið
mitt, Agnes, Agnes, sem einhver kallar. Þetta er Inga að æpa á mig
að hleypa sér út“ (168, mín skáletrun). Er hún opnar skemmuna
og sér að Inga er ekki lifandi er örvæntingu hennar og sorg lýst á
áhrifamikinn hátt:
…ég græt af því að það er verra en hitt að fá fulla vissu um að hún sé í
raun dáin. Fósturmóðir mín er dáin og mín eigin móðir er farin. Og ég sit
63 Í enska textanum er þessu lýst sem „some form of ghoul demanding to enter“ (Kent, Burial Rites,
144). Hér nær íslenska þýðingin („vofa“) ekki að fanga nógu vel hryllinginn sem gefinn er í skyn
í upprunalegu útgáfunni, en „ghoul“ þýðir „illur andi“ eða „ófreskja sem rænir grafir og étur lík“
(sjá snara.is).
64 Hér er enska útgáfan meira afgerandi í því að tengja beinlínis veðrið við framvinduna í lífi
Agnesar: „a great, icy gust of it suddenly blew against the door so hard that it knocked me off my
feet“ (Kent, Burial Rites, 144, mín skáletrun). Vindurinn er þannig gerður að orsakavaldi sem
bókstaflega hrindir Agnesi um koll, rétt eins og dauði Ingu kippir undan henni fótunum og gerir
hana að ómaga og einstæðingi.
„TILLAGA AÐ LÍFI“ : UM ÖRLÖGIN Í NORÐRINU OG ENDURSKÖPUN AGNESAR Í
NÁÐARSTUND EFTIR HÖNNUH KENT
10.33112/millimala.14.1.5