Milli mála - 2022, Blaðsíða 134
MILLI MÁLA
Milli mála 14/1/2022 133
sína og ætla mætti. Þetta er völundarhús þrárinnar.“43 Höfundurinn
Rodrigo S.M. gengur inn í sjálfsmíðað völundarhús og tekur hinn
tvöfalda innbyggða lesanda verksins með sér, og þannig verður til
skringilegur ástarþríhyrningur, í senn skapandi og eyðileggjandi,
sem grefur undan sjálfsmynd hans og knýr hann til að sjá heiminn
öðrum augum. „Stundum fær lesandi ást á persónu í skáldverki og
skilur ekki hvernig hann eigi að komast af án hennar. Aðrir telja sig
nátengda vissum höfundum og upplifa sambandið við þá sem tveggja
tal,“ segir Ástráður Eysteinsson, en hæglega mætti skipta þarna út
lesanda fyrir höfund, hvort sem það er innbyggður höfundur, sögu-
maður eða jafnvel raunhöfundur, og kannski sérstaklega í Stund
stjörnunnar þar sem Rodrigo er höfundur og persóna í verkinu og á
sér raunar ekki stað án persónu sinnar, því um leið og hann skapar
hana skapar hann sjálfan sig og að vissu leyti lesandann, sem lendir „í
sérstökum tengslum, einskonar samlífi, symbíósu“ við þetta verk og
við vitum „ekki betur en verkið hreinlega yrki okkur, vinni og virki
í okkur einhverja skynjun eða tilfinningu sem annars hefði kannski
alltaf legið í doða“.44 Hér er gott að líta til þess að Lispector leyfir
engum í þessu sambandi neina þægindastöðu, eins og Marta Peixoto
bendir á og hún lýsir aðilum sem dramatis personae, líkt og við værum
öll persónur og leikendur í harmleik sem við lesum og skrifum í
senn, sem þátttakendur og viðtakendur, gerendur og þolendur.45
Samkvæmt Ástráði mætti líta á lestur sem samband, í allra besta
falli langt og farsælt ástarsamband, en jafnframt listgrein í sjálfu sér,
rétt eins og listina að elska. Hann nefnir sérstaklega, í sambandi við
það sem hann kallar erótískt bókmenntalíf, ástríðufullan lestur sem
„er þá ekki fáguð og mannbætandi reynsla í þeim skilningi að maður
líkt og leggi verkið inn á sinn húmaníska reikning og sé víðsýnni
og skilningsríkari fyrir vikið. Lestur er fremur, rétt eins og hvert
annað skapandi viðvik, í senn ögrandi og tætandi, hann opnar bæði
og einangrar“.46
43 Sama heimild, 455.
44 Sama heimild, 454.
45 Peixoto, 97.
46 Sama heimild, 455.
ARNÓR INGI HJARTARSON