Milli mála - 2022, Blaðsíða 153
MILLI MÁLA
152 Milli mála 14/2/2022
upprunalega textanum – og að ný þýðing beint úr upprunalega
frummálinu verði betri en sú gamla. Bæði Wenjie Li og Martin
Ringmar vekja þó athygli á því að þetta sé ekki einhlítt, það séu
mörg dæmi um vel heppnaðar og virtar óbeinar þýðingar sem og
misheppnaðar beinar þýðingar. Þýðing úr upprunalegum frumtexta
getur stundum orðið ónákvæmari en þýðing úr millimáli, einkum
þegar þýðendur eru ekki kunnugir menningarheimi upprunalega
textans. Í slíkum tilfellum geta millimálsþýðingar af hendi þýðenda
sem eru nær menningarheimi upprunalega textans, eins og á t.d.
við um enska þýðendur Andersens, leitt til þess að upprunalega
merkingin skili sér betur og komið í veg fyrir misskilning sem
stundum vill verða í beinþýðingu þeirra sem eru langt frá málheimi
upprunalega textans. Þó að þýðingar úr millimáli auki óhjákvæmi-
lega fjarlægðina frá upprunalega frumtextanum má því í slíkum
tilvikum vega hana upp með því að þýða vel heppnaða millimáls-
þýðingu.28
En hvernig veit þýðandi hvort millimálsþýðing er á vetur setj-
andi? Oft veit hann það áreiðanlega ekki, hefur hreinlega ekkert val.
Þegar hann hefur val, t.d. um tvær þýðingar á sama millimáli, velur
hann væntanlega þá nýjustu eða þá sem honum finnst betri. Hér
kann virðingarstaða þýðanda og þýðingar raunar að spila inn í líka.
Sú sem virðist betri þarf hins vegar ekki að vera nákvæmari. Wenjie
Li tilfærir slíkt dæmi af þýðingum á verkum H. C. Andersens á
kínversku. Þar vegsamaði þýðandinn liprari millimálsþýðinguna,
sagði hana áreiðanlega, þó að hún virðist alls ekki hafa verið nógu
nákvæm miðað við dæmin sem Li tilfærir.29 Hafi þýðandi aðgang
að fleiri þýðingum kann hann að einhverju leyti að geta metið gæði
þýðingarinnar sem hann hefur til hliðsjónar, en hann kann líka að
komast að því að þýðingarnar séu ólíkar í veigamiklum atriðum. Ein
getur t.d. verið nákvæm en skort listræna nálgun. Það getur verið
munur á einstökum þýðingalausnum sem og á meginnálgun þýðend-
anna. Þegar ég þýddi As I Lay Dying eftir William Faulkner komst
ég t.d. að því að mikill munur var á dönsku og þýsku þýðingunum á
28 Ringmar, „“Roundabout Routes“: Some remarks on indirect translations“, 6; Li, „The Complexity
of Indirect Translation: Reflections on the Chinese Translation and Reception of H. C. Andersen‘s
Tales“, 197–98 og 192–194.
29 Li, „The Complexity of Indirect Translation: Reflections on the Chinese Translation and Reception
of H. C. Andersen‘s Tales“, 189–90.
ÞEGAR ÞÝTT ER ÚR MILLIMÁLI
10.33112/millimala.14.1.7