Milli mála - 2022, Blaðsíða 177
MILLI MÁLA
176 Milli mála 14/2/2022
lúta hinum frægu reglum frönsku nýklassíkurinnar um einingarnar
þrjár (einingu í tíma, rúmi og atburðarás). Þeir lúta einnig kröfunni
um trúverðuga framsetningu leiksýningarinnar. Þessi regla, sem á
rætur að rekja til Aristótelesar, felur í sér að áhorfendur eiga að geta
gleymt stað og stund. Þeir eiga að trúa, eða geta trúað, að þeir séu
vitni að raunverulegum atburðum. Leiksviðið og áhorfendasalurinn
eru, samkvæmt þessari hefð, ekki raunverulega aðskilin. Það er eins
og leikararnir viti ekki af því að verið sé að horfa á þá, rétt eins og
hinu raunverulega lífi er lifað án þess að nokkur sé að fylgjast með.
Molière lék sér að þessari forskrift á ýmsan hátt og átti það til að
gera áhorfendur að þátttakendum í leiksýningunum. Í leikritinu
Les Femmes savantes (Lærðu konurnar) gerir Molière gys að þekktum
monthana að nafni Cotin sem varð fyrirmynd leikpersónunnar
Trissotin í gamanleiknum. Ljóð eftir Cotin sjálfan var lesið upp á
sviðinu til þess eins að vera gert að athlægi. Annað dæmi um hvernig
skilin milli leiksviðsins og raunveruleikans renna saman er að finna í
Aurasálinni. Þegar Harpagon uppgötvar að fjárkistli hans, sem hann
hafði falið í garðinum, hefur verið stolið, kemur hann á sviðið, viti
sínu fjær af reiði og örvæntingu. Í einræðu sinni talar hann til áhorf-
enda og þykist sjá í þeim þjófinn. Svo vísar hann í hláturinn sem
hann heyrir í áhorfendasalnum.
Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta atriði, og strax á 18. öld
var það orðið skýrasta skólabókardæmið um það þegar rammi innra
heims leikhússins er brotinn upp. Það sem mér persónulega finnst
vera svimandi tilhugsun er sú skelfilega áskorun sem þetta atriði er
fyrir leikarann sem leikur Harpagon – sem var upphaflega Molière
sjálfur. Leikarinn verður að leika þannig að áhorfendur hlæi, annars
fellur textinn um sjálfan sig! Hver einasti leikari sem tekst á við þetta
hlutverk hlýtur að finna anda Molières líða hjá þegar hann fer með
þetta eintal, sem er auðvitað prófsteinn á list leikarans.
Að lokum var Molière höfundur að atvinnu, sem var langt frá
því að vera sjálfsagður hlutur fyrir leikskáld þeirra tíma. Hann lagði
mikla alúð við útgáfu leikrita sinna, eins og sjá má af formálunum
sem hann skrifaði. Hann gaf út leikrit sín, var meðvitaður um mikil-
vægi hins ritaða orðs og vildi ná til sem flestra með því að bæta les-
endum við áhorfendahópinn, í þeirri von að ná til komandi kynslóða.
Það ætlunarverk hefur honum sannarlega tekist.
MOLIÈRE
10.33112/millimala.14.1.8