Orð og tunga - 2023, Page 91
82 Orð og tunga
(10) Þú átt sjálfur í gapastokkinn, asni; eg að fara suður í
Reykjavík, og sækja þangað brauð ofan í helvítið á
þér, og ekkert í staðinn! (Jón Mýrdal 1912:199–200)
Jón Mýrdal var fæddur 1825 og sagan kom fyrst út árið 1872. Það er
því ljóst að helvítið á þér á sér talsvert langa sögu í málinu. Í Ritmálssafni
Orðabókar Háskólans (ROH) eru tvö dæmi um sambandið frá fyrri
hluta síðustu aldar eða miðbiki hennar:15
(11) a. Það er ekki svo að skilja að ég fyrir mitt leyti hefði ekki
gaman af að sjá framan í helvítið á þér einu sinni enn.
(Magnús Stefánsson (Örn Arnarson) 1972:99)
b. og í sama bili hóf Jónas tóbaksfjölina á loft, en hún
var þung eikarfjöl, og tvíhenti henni fram í baðstofu
hurðina, um leið og hann segir: „Hafðu þá þetta í
helvítið á þér.“ (Gráskinna hin meiri II 1979:317)
Þessi þrjú eldri dæmi um helvítið á þér skera sig frá ungu dæmunum í
(9) að einu leyti. Þau yngri eru notuð á sambærilegan hátt og mynstrið
X þinn í nútímamáli sem hrakyrði í nefnifalli. Eldri dæmin standa
hins vegar í aukafalli og minna að því leyti á sum fornmálsdæmin
um X þinn sem rædd voru í 3. kafla, sjá (7). Í öllum eldri dæmunum
virðist geta verið um að ræða andlit eða munn þess sem talað er við.
Hugsanlega merkir helvíti í þessum dæmum einfaldlega ‘munnur’ eða
‘andlit’.16 Ef sú er raunin er ekki um það að ræða að eigandi samsvari
eign eins og í samböndum á borð við helvítið þitt og ungu dæmunum
um helvítið á þér, þarna væri merkingin ‘munnurinn/andlitið á þér’.
En orðið helvíti þekkist ekki í neinni líkamshlutamerkingu ef marka
má orðabækur. Sigfús Blöndal, sem sýnir dæmið í (10), þýðir helvítið
á þér ekki á þann hátt heldur eins og sambandið vísi til mannsins
alls, „dit forbandede Skarn“. Í (10) er talað um brauð sem á að fara
ofan í helvítið á þér. En þarna vísar brauð ekki til brauðmetis heldur
prestakalls. Hugsanleg líkamshlutamerking orðsins helvíti í (10) er
því frekar langsótt nema um sé að ræða e.k. orðaleik. Að helvíti vísi til
líkamshluta í dæmunum í (10) og (11) er þó möguleiki sem ætti ekki
að útiloka.
Forsetningarliðurinn á + þgf., þar sem þágufallið vísar til persónu
15 Höfundur fyrra dæmisins var uppi 1884–1942.
16 Minna má á að orðið munnur á sér mörg niðrandi samheiti, svo sem þverrifa,
kjaftur, túli, trantur, og kannski var helvíti einhvern tíma í þeim hópi. Andlit á sér
einnig ýmis niðrandi samheiti.
tunga25.indb 82 08.06.2023 15:47:16