Orð og tunga - 2023, Side 92
Katrín Axelsdóttir: Að eiga það sem maður er 83
eða einhvers sem hefur líkama, er gjarna notaður í eignarsamböndum
þar sem um er að ræða svokallaða órjúfanlega (eða óaðskiljanlega)
eign (e. inalienable possession): höndin á mér, höfuðið á henni, nefið á
honum.17 Helvítið á þér minnir á slík sambönd því að nafnorðið er ná
tengt eða samtvinnað persónunni sem um ræðir. Hönd, höfuð, nef og
aðrar órjúfanlegar eignir eru einhvers konar „eignir“; þessi fyrirbæri
tilheyra þeim sem rætt er um, eru hluti af honum og verða ekki auð
veldlega numdar á brott. Svo er auðvitað ekki í sambandi á borð
við helvítið á þér, a.m.k. ekki í nútímadæmunum í (9); sá sem orðin
beinast að á ekki umrætt helvíti heldur er hann það. En þarna má sjá
líkindi við X þinn; þrjóturinn í þrjóturinn þinn tilheyrir ekki beinlínis
þeim sem ávarpaður er heldur er sá þrjótur (eða er talinn vera það).
Í báðum tilvikum er um að ræða orðalag sem setningafræðilega er
alla jafna notað um eigendur og einhvers konar eignir og í hvorugu
tilvikinu er um eiginlega eigendur og eignir að ræða; þeir sem þarna
er lýst eru „eignin“.
Helvítið á þér virðist ekki vera algengt samband þótt um það hafi
fundist nokkur dæmi. Helvítið þitt er miklu algengara. Í Risa mál heild
inni (2019) eru engin dæmi um helvítið á þér en hins vegar 124 um
helvítið þitt. Engin dæmi hafa við þessa athugun fundist um önnur
skammaryrði en helvíti næst á undan forsetningarliðnum á þér, þrátt
fyrir talsverðar eftirgrennslanir. Það er því líklega hæpið að tala um
mynstur, X á þér, í þessu samhengi, eins og hægt er að gera í tilviki X
þinn. Öðru máli gegnir um niðrandi tal í garð þriðju persónu. Ýmis
dæmi eru um mynstrið X á honum/henni (helvítið á honum, skömmin á
henni) sem nánar verður litið á í næsta kafla.
„Eignarmynstrin“ X þinn og X á honum/henni virðast notuð nánast
í fyllidreifingu með hrakyrðum á undan eignartáknun. Þegar önnur
persóna er ávörpuð er nær eingöngu notað X þinn (sárasjaldan X
á þér). En þegar þriðja aðila er hallmælt er X á honum/henni einrátt,
a.m.k. finnast engin dæmi um mynstrið X hans/hennar sem væri setn
ingafræðilega sambærilegt við X þinn: *helvítið hans, *skömmin hennar.18
17 Sambærilegir forsetningarliðir með forsetningunni í eru, sem kunnugt er, líka
notaðir með órjúfanlegri eign. — Þegar tungumál gera greinarmun á eignartáknun
eftir eðli eignar er stundum talað um split possession sem kalla mætti klofna
eignartáknun. Um slík fyrirbæri í Evrópumálum, sjá Stolz o.fl. 2008. Órjúfanlegar
eignir eru gjarna líkamshlutar en hugtakið getur átt við fleira, s.s. fjölskyldutengsl.
Um órjúfanlega eign í íslensku, sjá Steingrím Þórðarson 1979, Kristínu Bjarnadóttur
1989 og Höskuld Þráinsson 2005:214, 217–218.
18 Þetta var þó til í eldra máli, sbr. 4. kafla. Þar kom einnig fram að slík dæmi voru til
í eldri sænsku, hans dare.
tunga25.indb 83 08.06.2023 15:47:16