Goðasteinn - 01.06.1985, Síða 40
Vafalaust standa mörg ummæli eignuö Jóni krukk á eldri merg
en svo, að tengist honum og verða seint rakin til róta, en leita má
þar santanburðar út fyrir íslenska landsteina, t.d. til Noregs.
Uppistaða í þeim mörgum er, að eitthvert ákveðið slys eða óhapp
eigi að henda ef ákveðnar forsendur séu fyrir hendi á staðnum og
þá oft á valdi manna að atburðurinn sé ekki leiddur inn. Hér verða
rakin nokkur atriði af þessum toga, og eiga það sameiginlegt að
vera öll komin frá Jóni krukk:
Prettur nefnist lækur, eða öllu heldur farvegur vatns, ofan við
bæina í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Fannastífla getur myndast
í honum og í leysingum verður af vatnsflóð. Komið hefur fyrir að
Prettur hefur brotist þarna inn i bæi. Jón krukkur spáði því að hann
myndi eyða byggð í Mörk.
Mikill hamar ofan við bæinn á Núpi undir Eyjafjöllum heitir
Strákastígur. Hann mun hrynja yfir bæinn á Núpi þegar þrjár gráar
kýr eru reknar þar í senn til vatns í bæjarlækinn. Núpur hefur lengi
verið margbýlisjörð og fram á þessa öld gættu Núpsbændur þess að
þar væru ekki þrjár gráar kýr á þýlum.
Eyjólf Jónsson á Mið-Grund undir Eyjafjöllum heyrði ég segja
það laust fyrir 1940 að því hefði Jón krukkur spáð að prestssetrið
í Holti ætti eftir að verða eitt bóndabýli og þótti þá ósennilegt. En
hvað getur ekki gerst?
Upp af Húshömrum fyrir ofan byggðina i Steinum undir Eyja-
fjöllum reis klettur sem nefndist Hestshöfuð, enda minnti hann á
höfuð af hesti. Sagt var að Krukkur hefði spáð því að kletturinn
ætti að hrapa á Steinabæ. í jarðskjálftunum 1896 féll Hestshöfuð
en austur í Bæjargil svo byggðin slapp.
Núpakot stendur við rætur Steinafjalls, skammt austur frá
Steinum og margur kletturinn hefur hrapað þar heim undir bæ.
Gömul sögn var það að Núpurinn fyrir ofan bæinn myndi hrynja
á hann er þar væru 12 kýr í fjósi, lægju allar á sömu hlið og grátt
naut lægi á ysta básnum vestanmegin. Á þetta hefur víst aldrei
reynt.
Mikill klettur rís upp frá gamla bæjarstæðinu á Lambafelli undir
Eyjafjöllum, suðvestan í Lambafelli. Hann heitir Stóri-Klimpur.
38
Goðasteinn