Goðasteinn - 01.06.1985, Page 89
son, að máli. Hann var rúmlega hálfsjötugur þriðju kynslóðar
Islendingur og ættaður úr Norður-Þingeyjarsýslu. Helgi var hress
og ræðinn í besta lagi. Kvaðst hann hafa neitað að selja ríkinu jörð
sína og hefði í hyggju að sitja sem fastast á óðali sínu í Mikley á
hverju sem gengi. íslensku talaði hann betur en margir heima og
naut þess í ríkum mæli að spjalla við okkur á tungu forfeðranna.
Þá dró hann ekki af sér í gestrisni og höfðingskap, því að veitingar
bar hann fyrir okkur meira en hægt var að torga. Þar á meðal var
harðfiskur, sem hann verkaði sjálfur og átti í miklu magni í hjalli
sínum. Bragðaðist fiskurinn ágætlega og allan hafði hann veitt
hann sjálfur í Winnipegvatni, en Helgi stundaði veiðar af kappi eins
og flestir höfðu gert, meðan byggðin í Mikley var og hét.
Þeir Guðmundur Albert og Þorleifur fræddu okkur um
fjölmargt frá fyrri dögum í þessari sérstæðu sveit. Meðal annars
kom fram hjá þeim nokkur sársauki yfir því, hvernig farið hefði
verið með íbúana og þeir nánast flæmdir burt. Ýmsir þeirra vildu
nú helst snúa aftur, en það virtist ekki auðvelt úr því sem komið var.
Þó væri málinu haldið vakandi og ekki væri víst að öll sund væru
lokuð.
íslendingaborgin Gimli
Einn daginn sem við dvöldumst vestra, fórum við í heimsókn að
Gimli, sem er samfelldasta byggðin í Nýja-íslandi og eins konar
höfuðborg. Við byrjuðum á því, að heimsækja fræðsluskrifstofu
kaupstaðarins. Þar hittum við fyrir fræðslustjórann A1 Olson og
gjaldkerann Don Björnson, sem báðir eru af íslenskum ættum eins
og raunar flest af því fólki, sem þarna starfar. Vorum við upplýstir
um flesta þætti skólamála í þessum byggðum, en að því loknu
fórum við með þeim A1 og Don í Minjasafn Nýja-íslands, sem er
í gömlu timburhúsi niður við vatnið og hafði þar fyrrum verið íshús
og fiskverkun. í safni þessu er mikill sægur minja og muna frá fyrri
árum og því auðvelt að átta sig á aðbúnaði og lifnaðarháttum
landnemanna frá fyrstu tíð. Einnig var þar mikið af bókum,
blöðum, sendibréfum, póstkortum, ljósmyndum og öðru fræðandi
efni. Er auðséð á öllu að vel hefur verið staðið að söfnun og
uppsetningu þessara gömlu muna.
Goðasteinn
87