Goðasteinn - 01.06.1985, Side 97
Hálfdan póstur og ljósið
Einn af fyrstu landpóstunum í Nýja-íslandi var Hálfdan
Sigmundsson. Hann var vaskur maður og svo léttur til gangs að
hann hljóp jafnan við fót. Það var í janúar 1883 að Hálfdan lagði
upp í dagrenningu með póstinn norðan frá íslendingafljóti og
suður um byggðirnar. Veður var hið versta, stormur í fangið,
frostharka og fannkoma. Um hádegi náði hann að bæ Stefáns
Sigurðssonar og hafði þá gengið 16 kílómetra leið frá fljótinu. Þessi
bær var einn af fjórum viðkomustöðum Hálfdans á póstleiðinni,
þar sem hann var vanur að stansa til að hvíla sig og fá hressingu.
Með því að veðurútlit var ljótt, bað Stefán bóndi hann að setjast
þarna að um sinn og bíða betra veðurs, en Hálfdan þvertók fyrir
það og lagði brátt út í bylinn á ný.
Ekki hafði hann lengi farið, er veðrið herti enn, og byrjaði
Hálfdan þá að efast um að hann næði í næsta viðkomustað sem var
á Gimli. Hann réði sér varla fyrir veðurofsanum og öðru hverju
gekk hann aftur á bak til þess að brjóta ísinn, sem hlóðst fyrir augu
hans og andlit. Brátt tók að kvölda og vetrarmyrkrið jók enn á sorta
hriðarbylsins. Hálfdan hafði gengið rösklega, en var nú tekinn að
finna til mikillar þreytu. Hann hafði svitnað á göngunni og föt hans
blotnað, en nú tóku þau að frjósa í vetrargaddinum. Kuldinn og
þreytan voru að yfirbuga hann, svo að um síðir féll hann niður í
snjóinn og fann þá síga á sig þungan svefnhöfga.
En ekki hafði hann lengi legið, er hann hrökk upp við að einhver
kallaði til hans háum rómi: „Sjáðu ljósið.” Hann spratt á fætur og
gekk aftur af stað. En ekki hafði hann gengið nema fáein skref,
þegar hann sá ljósbjarma gegnum hríðarkófið. Tók hann þá óðar
stefnuna á þennan bjarma og kom þá brátt að húsi Péturs Pálssonar,
þar sem hann var vel kunnugur. Þarna var honum tekið með
gestrisni og vinsemd og þóttist fólk hann úr helju heimt hafa. Fékk
hann þarna óðar þurr föt, hressingu og hvíld. Næsta morgun var
komið sæmilegt veður og hélt hann þá áfram ferð sinni. Ekki varð
Hálfdani pósti meint af þessum hrakningum, en það sagði hann
síðar að aldrei mundi hann verða svo gamall að hann gleymdi
röddinni, sem hrópaði til hans í óveðursbylnum og beindi honum í
áttina til ljóssins og lífsins.
Goðasteinn
95