Mímir - 01.06.1996, Qupperneq 6
Sigtryggur Magnason
Alvara og skaup í sögu Mímis
Það er oft furðulegt til
þess að hugsa að þeir
prófessorar, dósentar
og lektorar sem við
horfum nú upp til með
óttablandinni virðingu
hafi einhvurjusinni
verið í sömu sporum og
við; tekið þátt í svipuð-
um skemmtunum og
jafnvel í svipuðu ásig-
komulagi. Það er þó
svo að þetta fólk hefur í
fæstum tilfellum fallið af himnum ofan, heldur
skriðið upp sömu stigana með sama sandinn í
munnvikjunum. „Möl er mikils vísir“ segir hið
fornkveðna og hafa Mímisliðar svo sannarlega
sýnt það og sannað að þeir geta komist í góðar
stöður allsstaðar í þjóðfélaginu.
í upphafí ...
Dagurinn ellefti desember markar ekki aðeins
spor í íslandssöguna vegna verkfallsins í Garna-
hreinsunarstöð Sambands íslenskra samvinnufé-
laga árið 1930. Nei, merkari atburður átti sér stað
réttum sextán árum síðar í setustofu Nýjagarðs
klukkan hálfníu um kvöldið. Tilefnið var stofnun
félags sem átti að gæta hagsmuna stúdenta í ís-
lenskum fræðum. Viðstaddir voru sautján stúd-
entar.
Forsaga stofnunarinnar var sú að síðla í nóv-
ember sama ár höfðu nítján stúdentar komið sam-
an og kosið sér nefnd til að undirbúa stofnun
félags. I nefndinni voru: Finnbogi Guðmundsson,
Gunnar Finnbogason, Gestur Magnússon, Gísli
Jónsson og Árni Böðvarsson.
Þessi nefnd hafði einnig það hlutverk að búa til
lög fyrir félagið og voru þau borin upp á fyrsta
fundinum og samþykkt, að loknum umræðum,
svotil óbreytt. Nafn félagsins var Mímir og fyrstu
stjórn þess skipuðu: Finnbogi Guðmundsson, for-
maður, Gunnar Finnbogason, ritari og Hermann
Pálsson, gjaldkeri. Þrátt fyrir alvarleika tilefnisins
héldu menn ekki heim að loknum venjulegum
aðalfundarstörfum; miðvikudagar hvort sem er
Bráðavaktar- og Melróspleislausir og að litlu að
hverfa. í stað þess flutti Jónas Kristjánsson „laus-
lega þýdda smásögu“ og var þessi hefð, að hafa
skemmtiefni að loknum fundum, höfð í heiðri allt
fram til 1954. Veturinn 1950-1 endar ein fundar-
gerðin svo: „Jónatan Skagan gekkst fyrir söng
fundarmanna og lék á slaghörpu, sungu menn
Hreðavatnsvalsinn og fleiri falleg lög.“
Uppúr 1950 fer samt að dofna yfir félagsskapn-
um og í aðalfundargerð árið 1953 segir um stjórn-
arkjör: „Kjörin voru í hefndarskyni fyrir að mæta
ekki á fundinum: ...“
Fundur sjötta apríl 1954: „Að góðum og göml-
um sið var hann bæði fámennur og fáskiptinn um
merkilega hluti.“
Á þessu áhugaleysi var gerð nokkur bragarbót
þegar fundir hófust í Naustinu en í fundargerð
segir að fundurinn hafi verið haldinn „einhvern
þann dag haustið 1954, sem ritari man hvorki nafn
né númer á ...“ Menn virðast hafa skemmt sér hið
besta því ýmislegt er óráðið við þennan fund:
„Ritari leyfir sér að stinga upp á því, að Sigurður
Friðþjófsson og Baldur Jónsson hafi verið kosnir
endurskoðendur.“ Síðasti Naustsfundurinn var
haldinn árið 1955 og lýkur fundargerðinni á þess-
um orðum: „Önnur mál fóru á víð og dreif, og var
hverjum manni ofviða að henda reiður á þeim til
frásagnar.“
Rannsóknaræfingar hófust aftur árið 1959 og
greinir Árni Björnsson frá því í grein hér í blaðinu.
Það fór líka að færast líf í Mími uppúr 1960 og
virðist það ekki síst vera blessaðri pólitíkinni að
þakka.
4