Mímir - 01.06.1996, Side 49
Af bréfum Jóhanns má sjá að hann bregður oft
fyrir sig þýskum orðum vegna þess að íslenskan
nægir honum ekki. Á þeim tíma sem hann yrkir
Söknuð viðurkennir hann að þýsk tunga liggi hon-
um léttar en íslenska. Er fjarri lagi að ætla að
Jóhann hafi seilst til orðsins „undursamleiki" í
íslensku til að tákna merkingu þýska orðsins
„Wunderlichkeit" án þess að gera sér grein fyrir
að „undursamlegur“ á íslensku þýðir ekki það
sama og „wunderlich“ á þýsku?
Samkvæmt því hlyti eignarfallseinkunnin „und-
ursamleikans“ aðra, eða a.m.k. víðari, merkingu
en venjubundinn skilningur býður. Sé um að ræða
þýðingu á „Wunderlichkeit“ er „þrotlaus brunn-
urinn“ í Söknuði „undarlegur“ en ekki „unaðsleg-
ur“. Slík merking slær hreinni samhljóm við ófull-
burða og framandi kenndir kvæðisins og stendur
mun nær expressjónískum aldarhætti.
Önnur expressjónísk
einkenni í Söknuði
Sundrað sjónarhorn. Söknuður á það sameigin-
legt mörgum öðrum expressjónískum ljóðum að
hafa mælanda með sundrað sjálf. Hann skynjar
ýmislegt án þess að vita til fullnustu hvað það er;
augun eru haldin, hjörtun trufluð. Það er ekki
einn mælandi sem skynjar og miðlar heldur ein-
hverjir óskilgreindir „vér“. Óákveðinn, sundrað-
ur mælandi er algengur í expressjónískum ljóðum.
T.d. í Duineser Elegien eftir Rilke sveiflast mæl-
andinn milli eintölu og fleirtölu, milli fyrstu
(,,mín“) og annarrar („þín“) persónu.
Jóhann virðist hafa gaumgæft sjónarhornið í
Söknuði og áhrifum þess. „Vér“ er að vísu áber-
andi en þar eru líka „ég“ og „þú“, („Unn þú mér
heldur um stund“). Og eins og í öðrum ljóðum ex-
pressjónismans er inntak persónufornafnanna
breytilegt, („þú“ er t.d. ýmist „barn“, „minning“
eða ,,blekking“).
Þrátt fyrir að expressjónísk ljóð einkennist af
sundruðu sjónarhorni og óvissum geranda er til-
hneigingin til að standa saman, að ala önn fyrir
náunganum, oft nálæg. Hægt er að benda á ein-
stök orð sem koma oft fyrir í skáldskap express-
jónista og sýna þetta best: bróðir, systir, félagi,
maður, vinátta. Það er þessi nýi mannskilningur
sem Jóhann gerir tilraun til að koma á framfæri í
Söknuði. í bréfi til Skúla Þórðarsonar segir Jó-
hann: „Bræðrahugur hins nýja manns, sem telur
sig fjöldans lið og brot, andar úr þessum línum.
JÚ, það er reyndar ég sjálfur, sem ég segi frá —• en
jafnframt er þetta raunaljóð rnitt, raunaljóð okkar
allra. Þetta sýnir sig ennfremur í ytra formi, í
fleirtölunni — vér í stað ég-sins.“
Mörg expressjónísk ljóð eru skrifuð í vakning-
ar- og hvatningarstíl, orðmörg, óhnituð og tilfinn-
ingaþrungin, svokölluð „0-Mensch-Dichtung“.
Oft er mælskan í þessari tegund ljóða biblíuleg,
einstök orð eða aðstæður eru sóttar í sögur biblí-
unnar. Þetta er afar skiljanlegt þegar hafður er í
huga heimsslitaboðskapur sumra þeirra og guð-
leysisboðskapur annarra. Mensch stehe auf eftir
Johannes R. Becher og Duineser Elegien eftir
Rilke eru dæmi um slík ljóð.
Freistandi er að fella Söknuð undir þessa teg-
und expressjónísks skáldskapar því ýmis líkindi
gefa tilefni til þess. Þótt Jóhann virðist ekki sækja
einstök tákn í rit biblíunnar (eins og t.d. nafni
hans Sigurjónsson í Sorg) er samt freistandi að
halda því fram að stíllinn sé biblíulegur. Málfar er
upphafið, upphrópunin „ó“, sem kemur fjórum
sinnum fyrir í ljóðinu, er biblíuleg. Hliðskipaður
stíllinn þar sem setningar hefjast á „og“ minnir á
47