Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1937, Qupperneq 55
55
t. d. Hofstaðir í Garðahreppi (Reykjavik), Hofstaðir í Háisasveit
(Breiðabólstaður), Hofstaðir í Stafholtstungum (Stafholt), Hofstaðir
á Mýrum (Borg), Hofstaðir í Miklholtshreppi og Hofgarðar í Staðar-
sveit (Staður á Ölduhrygg), Hofstaðir i Helgafellssveit (Helgafell),
Hofakur í Hvammssveit (Hvammur) og Hof í Hörgárdal (Möðruvellir).
Hafi hof höfðingjanna, sem sátu á þessum höfuðbólum, verið á þess-
um bæjum, og til þess bendir bæði nafn þeirra og afstaða til höfuð-
bólsins, þá hefir ekkert af Kirkjubólunum sjö, sem hér er um að ræða,
nema, ef til vill, Kirkjuból í Hellistungum, verið lengra frá bænum,
sem sóknarkirkjan seinna var á, en sumir þessir hofstaðir voru frá
heimili goðans. Þegar nú fyrirmenn sveitanna tóku að byggja kirkjur,
fyrst eftir að kristni kom í landið, þá er ekki ómögulegt og jafnvel
ekki ósennilegt, að þessarar gömlu venju um hofin hafi gætt, og
nokkrir þeirra byggt kirkju sína í nokkurri fjarlægð við heimili sitt'
þótt þeir seinna kæmust að raun um, að það væri óhentugt, og flyttu
þá kirkjurnar heim á bæ sinn. Kirkjuflutningar sýnast ekki hafa verið
fátíðir hér á landi á fyrstu öldum kristninnar. Til þess bendir það,
að þörf hefir þótt á því, að setja lagaákvæði um það efni1). Þótt þess-
ari venju um hofin hafi verið fylgt, er ekki þar með sagt, að kirkj-
urnar hafi endilega verið byggðar þar sem hof hafði verið, enda er
það Ijóst, um sumar af kirkjum þessum, að svo hefir ekki verið. í
Staðardal í Steingrímsfirði var bær, sem Hofstaðir hét, og í Norðfirði
er Hof í grend við Skorrastaði, og eru þetta hvorttveggja aðrar jarðir
en Kirkjubólin í þessum byggðum.
Nöfn þessara sjö Kirkjubóla verða ekki skýrð með sama hætti
og nöfn hinna jarðanna, er svo heita. Þau eru öll, nema Kirkjuból í
Hellistungum, ekki mjög langt frá sóknarkirkjustaðnum. Um þrjú þeirra
eru til munnmæli, sem lúta að flutningi kirkjunnar. Um hið fjórða
koma til greina aðrar líkur, sem styðja það, að kirkjan hafi verið
flutt. Það, sem hér hefir verið sagt, gæti skýrt uppruna þessara nafna,
og þegar ekki er um neina aðra líklegri skýringu að ræða, þá sýnist
varla vera óleyfilegt að orða það, að þau séu tilorðin með þessum hætti.
Ef svo er, leiða þau oss til fyrstu tíma kristninnar hér á landi.
Kirkjubólsnöfnin eru þá sum frá fyrri hluta 11. aldar. Ef hinsvegar
litið er til heimildanna, þá koma 6 af nöfnum þessum fyrir i heimild-
um frá 13. öld og, ef til vill, eitt til viðbótar (Kb. i Langa-
dal). Fimm þeirra eru nefnd í heimildum frá 14. öld og, ef til vill,
hið sjötta (Kb. i Norðfirði). Hin eru flest nefnd fyrst i heimildum frá
15. öld. En þótt vér ekki höfum eldri heimildir um nöfn þessi en nú
var sagt, þá geta þau öll verið miklu eldri.
1) Sjá t. d. Grg. I. a. 12-13. II. 14-15