Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1937, Side 145
143
nærstæðari en hann. Þessi samsteypuaðferð leiðir með öðrum orðum
til sífellrar óreiðu og glundroða um meðferð textanna, eftir mati og
áliti hvers útgefanda um sig, án þess að hægt sé að nálgast frum-
texta ritanna á fullnægjandi hátt. En auðvitað er það takmarkið, sem
stefnt er að, að fá texta höfundanna sjálfra svo hreinan og ómeng-
aðan sem kostur er á. Við fornritaútgáfuna og aðrar vandaðar út-
gáfur á síðari tímum er sú aðferð höfð, að eitt handrit er lagt til
grundvallar útgáfunni, það handrit, sem að nákvæmlega rannsökuðu
máli er talið bezt. Texta þessa handrits er svo fylgt nákvæmlega og
hvergi frá honum vikið nema þar, sem um auðsæjar villur er að
ræða, og er slíks þá jafnan getið neðanmáls, ef ekki er um smávægi-
legar ritvillur einar að ræða. Hafi hin handritin eitthvað fram yfir
aðalhandritið eða greini frá á annan veg að efni til, þá er þess einn-
ig getið neðanmáls. Þessi aðferð er hin eina, sem gefur gildar líkur
tiJ að hægt sé að nálgast frumtexta sagnanna. Með því að fylgja
bezta handritinu, sem er þá um leið komið frá bezta afritaranum og
jafnframt einnig um fæsta milliliði frá texta höfundarins, er valin
hin skemmsta leið til sjálfs frumritsins.
Það ætti nú að vera ljóst, að maður, sem annaðhvort skilur ekki
eða læzt ekki skilja þær aðferðir, sem beitt er við útgáfu fornrit-
anna, er naumast líklegur til þess að kveða upp sanngjarnan eða rétt-
an dóm um það, hvernig útgáfustarfið er af hendi leyst. Svo er um
höfund greinarinnar hér að framan. Hann heldur á lofti úreltum
skoðunum, sem fræðimenn síðari tíma hafa algerlega varpað fyrir
borð, og ætlast til, að þeim sé fylgt í hinni nýju fornritaútgáfu. Slíkt
er auðvitað fjarstæða, sem ekki nær neinni átt. Það er ekki hægt að
þurrka út eða nema á burt niðurstöðurnar af rannsóknum heillar
kynslóðar, sem unnið hefir að því að afla sér víðtækara skilnings á
norrænum fræðum, og flytja allt heilan mannsaldur aftur á bak.
Enginn viti borinn maður með þekkingu á þeim framförum, sem
orðið hafa í þessum fræðum, jafnvel með ári hverju á síðustu tímum,
myndi æskja slíks. Sá, sem ætlar sér að gagnrýna fornritaútgáfuna,
verður sjálfur að setja sig í spor útgefandanna, þekkja starfsháttu
þeirra og aðferðir, bera skyn á reglur þær, sem útgáfan fer í aðal-
atriðum eftir, og dæma um verkið frá þeim sjónarmiðum.
Það er enn til marks um skilning höf. á þessu efni, hvernig hann
blandar inn í grein sína aðfinnslu við stað einn í Landnámuútgáfu
Finns Jónssonar frá 1925. Sá kafli er um Ingólf Arnarson, og er