Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1937, Page 173
171
það verður ekkert fullyrt, en nokkur vafi er á um aldursákvörðun
hans (Dipl. Isl. VII. 14—15).1)
Ég ætla að sterkar líkur sé fyrir því, að kirkja sú, er Páll
biskup vígði um 1200, hafi verið Ofanleitis-kirkja, og hafi þá fyrst
verið sett þar prestssetur. Nú mætti gegna furðu, að byggðar væri
tvær kirkjur í ekki fjölmennara héraði. Kemur þar margt til, en
einkum hafa hinir sérstöku staðhættir ráðið miklu um þetta. Vegna
hinna erfiðu samgangna við Vestmannaeyjar gat það hæglega komið
fyrir, að prestslaust yrði þar svo mánuðum skifti, ef svo vildi til, að
presturinn andaðist á þeim tíma árs, er veðrátta var með stormum
og gekk í brimum við sanda. Biskupum þótti alltaf miklu skifta, að
ekki yrði prestslaust í sóknum, og átti þetta ekki sízt við í kaþólskum
sið. — Um þessar mundir voru Vestmannaeyjar í eign Skálholtsstóls,
og lá því næst, að landeigandinn léti gera þar kirkju. Verstöð hefur
verið orðin mikil í Vestmannaeyjum um þetta leyti. Vermannafjöldi
hefur því verið mikill um vertíðir, svo að ein lítil kirkja hefur ekki
nægt, meðan vertíð stóð. Hefur það og ýtt undir, að önnur kirkja var
byggð, en prestum ekki fjölgað við Klemenskirkju.
Kirkjustöðum hefur þá verið komið á fót í Vestmannaeyjum,
eins og hér segir:
Klemenskirkju á Hörgaeyri árið 1000.
Þoi’lákskirkju (Pétursk., Andrésk.) á Ofanleiti um 1200.
Nikulásarkirkju á Kirkjubæ árið 1269.
Jóh. Gunnar Ólafsson.
1) Hami er í Dipl. Isi. VII., bls. 41, talinn muni ,,án efa, vera frá tímum
Stepháns“ byskups (1491—1518). M. Þ.