Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1983, Blaðsíða 176
180
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur skráði ásamt hópi
brezkra fræðimanna fornleifar í Fossárdal í Berufirði og í Vesturdal í
Skagafirði. Fékk hún m.a. styrki frá Þjóðminjasafni og Orkustofnun til
skráningarinnar.
Þá framkvæmdi Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornfræðinemi nokkra
eftirrannsókn í skálanum í Stöng í Þjórsárdal og fann gólf undir skála-
gólfinu, sem grafið var upp 1939, enda hafði þess orðið vart oftar en
einu sinni áður. En þarna komu í ljós athyglisverðir hlutir, sem þarfnast
nánari rannsóknar.
Þjóðminjavörður kannaði fornkuml í Njarðvík í Norður-Múlasýslu,
en þar hafði fundizt höfuðkúpa af manni tveimur árum áður, og einnig
við forvitnisgröft á árunum milli 1915 og 1920. En kumlið var algerlega
tómt, fannst þar aðeins eitt kjúkubein úr manni, ekki tangur né tetur
annað. — En ferðin var notuð til að kanna fleiri minjar austur þar.
Þá má nefna, að í Skálholti voru kannaðar lítils háttar gömlu trað-
irnar og gamla bæjarstæðið, en Biskupsstofa hafði fengið nokkurt fé úr
Þjóðhátíðarsjóði til að lagfæra þar og hreinsa. Guðmundur Ólafsson sá
um þetta verk.
Að lokum skal þess getið, að safnið hafði nokkurn viðbúnað vegna
hugsanlegs fundar hollenzka skipsins Het Wapen van Amsterdam á
Skeiðarársandi, en nú leit svo út fyrir, að skipið væri fundið á um 8-11
metra dýpi í sandinum. Fór þjóðminjavörður ásamt Guðmundi Ólafs-
syni og Halldóru Ásgeirsdóttur forverði þangað austur í ágústmánuði
og síðan fóru þau Guðmundur og Halldóra austur í byrjun september
til að vera við er farið yrði að dæla upp úr þrónni, sem gerð hafði verið
með stálþili á sandinum. Var safninu veitt nokkur aukafjárveiting til
þess að það gæti haft hönd í bagga við leit og rannsókn og var keyptur
lipur ferðajeppi í þessu sambandi. - En svo fór, að skipið reyndist ekki
þarna undir heldur gamall togari og var því verkinu sjálfhætt að sinni,
en leitarmenn kveðast halda áfram að vori og þarf þá að fylgjast með
verkinu.
Friðlýstur var á árinu svonefndur Baðstofuhellir og rústir eyðibýlisins
Hellna í Reynishverfi í Mýrdal, en í hellinum bjó Jón Steingrímsson
fyrsta vetur sinn þar syðra, og einnig voru friðlýstar rústir Mið-Bakka
og tættur við Bjarnarhól í landi Syðri-Bakka í Arnarneshreppi í Eyja-
fjarðarsýslu. Þá voru friðlýstar rústir Stóra-Háls í landi Hámundarstaða
í Árskógsstrandarhreppi í sömu sýslu.