Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1983, Blaðsíða 58
62
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
mönnum (synantropar). Frjó skurfu (Spergula arvense) fundust í sýnum
H1 og T14, en í Þjórsárdalslínuritunum verður hennar fyrst vart ofan
Landnámsösku (Sigurður Þórarinsson 1944). Þar komu líka frjó garða-
brúðu (Valeriana) ofan Vlla+b, en á Heimaey í sýni H3, T19 (utan við
talningu) og T17 (tætla). Selgresi (Plantago lanceolata) er ein þeirra jurta
(ásamt garðabrúðu), sem Steindór Steindórsson (1964:39) telur (sam-
kvæmt eðli þeirra og fundarstöðum á íslandi) að geti hafa borist hingað
með pöpunum írsku. Selgresisfrjó fundust í Torfmýri (Tll, T7, T2) en
ekki í Herjólfsdalssniðinu. Það frjólínurit fastalandsins, sem stendur
Heimaeyjarsniðunum næst, er Lágafellslínuritið úr Landeyjum (Páhls-
son 1981). Elsti hluti þess sniðs er frá því um Kristsburð. Selgresisfrjós
varð vart þar nokkru neðan við Vlla+b (eitt frjó) og er talið vera flutt
langt að (bls. 62) fremur en komið frá jurt er óx á staðnum. Þá má geta
malurtarfrjós í TIO og einnar vafasamrar greiningar á netlufrjói í T2.
Ekkert eitt sýni öðru fremur er því með frjófundi hugsanlegra „synan-
tropa“, þ.e. mannelskra jurta, eins og sjá má á þessari upptalningu.
Að lokum má geta eins einkennis á landnámi í íslenskum frjólínurit-
um, en það er fall hvanna (Þorleifur Einarsson 1962, Margrét Halls-
dóttir 1982) vegna beitar og manneldis. Á Heimaey hafa hvannstóð
vafalítið verið mörg og gróskumikil við landnám og erfitt hefur reynst
að gera út af við hvönnina að fullu, þar sem hún vex víða í björgunum,
þangað sem torleiði er. Falls í hvannalínuriti gætir fyrst með sýni H1 í
sniðinu frá Herjólfsdal, og í Torfmýrarsniðinu er hundraðshluti hvanna
lágur í T20, T16, T2 og Tl.
í greinargerðinni um Herjólfsdalslínuritið var reynt að leiða líkur að
því að uppgangur í mjaðjurtalínuriti vitni um búfjárbeit (Margrét Halls-
dóttir 1979:4), en í bókinni Nordisk váxtgeografi (Sjörs 1967:150) er
sagt að skepnur sniðgangi mjaðjurtina.
Mjaðjurtin getur vart talist algeng jurt á íslandi. Hún vex helst innan
um kjarr (t.d. í Öskjuhlíðinni í Reykjavík), en einnig og e.t.v. þekktari
sem mýrlendisjurt og þá oft bundin framræsluskurðum mýranna (t.d. á
Suðurlandi) og að því leyti mætti telja hana „apofyta" á 20. öldinni. í
Flóru íslands er mjaðjurtin sögð verða stórvöxnust í deigum valllendis-
lautum. Lægð er í landslagið þar sem jarðvegssúlan er tekin, enda var
þar valinn staður fyrir niðurfall á golfvelli eyjaskeggja. Á þeim tíma,
sem liðinn er frá því mjaðjurtafrjóbeltið varð til, má telja víst að fremur
hafi bæst í dældir sem þessa og blásið af hæðum heldur en hitt. Hlið-
stæðu við mjaðjurtafrjóbeltið (Hd 2) er ekki að finna í Torfmýrarlínu-
ritinu, hvort sem þar er um að kenna hugsanlegri eyðu í sniðinu eða að
það nái ekki yfir þann tíma sem Herjólfsdalslínuritið spannar. Þriðja