Aldamót - 01.01.1901, Side 133
133
og kominn væri riddari sunnan úr heimi, búinn vopn-
um svo glæstum, að menn fengu ofbirtu í augun. Því
verður naumast neitað, það fylgir hinum fyrri ljóðum
Gröndals eins konar ofbirta. Málskrúðiö er svo mik-
ið, hann steypir yfir mann þvílíku flóði fagurra orða,
að maður gleymir sér. Hljómfegurðin er svo mikil,
að hún setur mann í eins konar dáleiðslu-ástand. Eg
hætti ósjálfrátt að hugsa um þýðingu setninganna og
hvers vísuorðs, en hugsa einungis um hina töfrandi
fegurð orðanna. Enda sést það á öllu, að þetta skáld
hefir ávalt álitið fegurð skáldskaparins mest af öllu
fólgna í hljómfegurðinni og glæsilegu málskrúði.
Dýpt og fegurð hugsunarinnar hefir hann ávalt lagt
miklu minni áherzlu á. Hann hefir líka náð hljóm-
fegurð málsins að minni ætlun betur en flest önnur
íslenzk skáld, einkum í eldri kvæðunum. Það
syngur í þeim eins og tónkvísl, þegar farið er með
þau.
Benedikt Gröndal hefir komið fram fyrir þjóð
sína í ótal myndum. Stundum svo alvörugefinn, að
honum stekkur ekki bros. Hann er þá með alls kon-
ar speki og hugsanir út af lífinu. Hann lítur björtum
og vingjarnlegum augum á lífið og tilveruna og ilm
vorsins og hita sumarsins leggur að manni úr beztu kvæð-
unum hans. Hann er há-rómantiskur í anda. Það
er eins og sál hans hvíli oft uppi í skýjabólstrunum og
horfi þaðan mður á jörðina. Skáldafákur hans fer svo
geist, að alt iðar og spriklar fyrir augum manns.
Hann tekur oftast næst nokkuð djúpt í árinni og vill
helzt ekki nýta nema stærstu orðin, sem til eru. Alt
fær þess vegna yfirnáttúrlega stærð, sem hann lýsir í
skáldskap sínum. Hann er oft ekki nema með annan
fótinn í þessum heimi og varla það. Hann hafði um
tíma fjarska sterk áhrif á íslenzka ljóðagjörð. Bæði
Kristján Jónsson og síra Matthías Jochumsson hafa
gengið í skóla hjá honum.
En svo hefir hann líka birzt í alt annarri mynd.
Hann kemur þá fram sem æringi svo mikill, að hann