Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1948, Blaðsíða 184
134
STEINGRÍMUR J. ÞORSTEINSSON
bókin kom út um mánaðamótin næstu.1 Övíða var hennar þó getið nema í dagblöðum
þeim, sem nú var til vitnað, og í Eimreiðinni (Magnús Jónsson).2 Hún hafði að þessu
sinni verið prentuð í 1100 eintökum, og þraut upplagið ekki, meðan Einari entist líf —
gekk til þurrðar á rúmum 20 árum.
Þar með er lokið sögu þýðingarinnar á Pétri Gaut um daga þýðandans. En síðan
hefur hún verið birt í þriðja sinn í heildarútgáfunni af Ijóðmælum Einars 1945, fyrsta
bindinu. Hafði Einar selt útgáfuréttinn að öllum ritum sínum 17. jan. 1938 í hendur
útgáfufyrirtæki. er nefndist Bragi h.f., en stjórn þess seldi aftur Isafoldarprentsmiðju
leyfi til einnar útgáfu ljóðanna allra (Einar Benediktsson: Ljóðmæli I-—III. Utgefandi
ísafoldarprentsmiðja h.f. Reykjavík MCMXLV. Pétur Sigurðsson háskólaritari bjó til
prentunar). Pétur Gautur er þarna að sjálfsögðu prentaður eftir útgáfunni 1922, en í
þeirri mynd gekk Einar síðast frá þýðingunni. — Enn er þess að geta, að vorið og
haustið 1944: voru þrír fyrstu þættir Péturs Gauts sýndir alls 31 sinni í Reykjavík á
vegum Leikfélags Reykjavíkur við frábærlega góðar viðtökur, enda voru þær sýningar
með mestu afrekum leikfélagsins. En hvorki hefur Pétur Gautur verið leikinn hérlendis
fyrr né síðar. nema hvað stuttir kaflar hafa verið fluttir í útvarp (t. a. m. dauði Ásu).
II
Eins og Ijóst má vera af hinu sögulega yfirliti hér að framan, var þýðing Einars
Benediktssonar á Pétri Gaut prentuð — að nokkru eða öllu leyti — þrisvar sinnum
um bans daga (1897, 1901, 1922 — þótt aðeins væri hún þá tvisvar sinnum gefin
út — I, og í hvert skipti eru einhverjar breytingar á gerðar frá þeirri mvnd, sem verkið
áður hafði. Þessar breytingar eru raunar ekki svo margar eða róttækar, að alls kostar
rétt sé að tala um þrennar „gerðir“ þýðingarinnar, þótt það orð verði hér stundum
notað. Stofninn frá 1897 stendur lítt haggaður, þótt nokkuð sé hann kvistaður, en hafi
í staðinn skotið nýjum greinum — og víða aðeins sniðinn litið eitt til. Allt um það er
hér að finna allmörg dæmi þess, hvernig Einar breytir, fágar og endursemur. Lítt
myndi leitað um það fróðleiks í þessa þýðingu Péturs Gauts, ef til væru ríkuleg gögn
um vinnubrögð Einars við frumort kvæði hans. En slíkum gögnum er varla til að
dreifa. Það er ekki aðeins, að kvæðabækur Einars líkist mest úrvali úr kvæðasöfnum,
heldur eru og flest kvæðin aðeins til í endanlegri, fullgerðri mynd sinni. Orfá hafa
varðveitzt í eiginhandarriti, sem er þá hreinrit. Frumdrög að kvæðum eru aðeins til
frá síðustu árum Einars í Herdísarvík, en þau brot hlutu aldrei fullnaðarmynd, svo
að af þeim verður lítt rakið, hvernig kvæði hans sköpuðust. Mjög er það og fágætt,
að hann hafi ort upp kvæði, sem hann hafði áður birt (þó Líkskurðurinn, Dagskrá,
13. ágúst 1896: Líkskurður, Hrannir 1913). Um hitt eru ærnar heimildir nákunnugra
manna, að Einar vann oftast lengi að kvæðum sínum.3 Þessi mikli skáldsnillingur og
orðhagi var ekki að sama skapi mikill „hagyrðingur“ í venjulegri merkingu þess orðs.
1) Bókarinnar er getið í Vísi 3. febr. (Alexander Jóhannesson) og Morgunblaðinn 7. febr. 1922.
2) Einnig er á hana drepið í Iðunni, n. fl., VII, 259 (Agúst H. Bjarnason).
3) Sbr. m. a. Frásagnir Valgerðar Benediktsson, 129.