Morgunblaðið - 23.01.2001, Síða 12
FRÉTTIR
12 ÞRIÐJUDAGUR 23. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
FORSVARSMENN bankanna vísa
á bug þeirri gagnrýni Sverris Her-
mannssonar, formanns Frjálslynda
flokksins og fyrrverandi banka-
stjóra Landsbankans, að þeir hafi
„narrað vankunnandi Íslendinga“ til
að kaupa hlutabréf í deCODE, móð-
urfyrirtæki Íslenskrar erfðagrein-
ingar, á margföldu verði. Telja þeir
gagnrýnina vart svara verða.
Sverrir lét þessi ummæli falla á
landsfundi flokksins á föstudag.
Beindi hann orðum sínum sérstak-
lega að Landsbankanum en talaði
einnig um önnur fjármálafyrirtæki í
sömu andránni. Bankastjóri Lands-
bankans, Halldór J. Kristjánsson,
vísaði þessari gagnrýni Sverris
einnig á bug í frétt í sunnudags-
blaðinu.
Finnur Reyr Stefánsson, fram-
kvæmdastjóri markaðsviðskipta Ís-
landsbanka-FBA, sagði að bankinn
kannaðist ekki við að hafa narrað
einn eða neinn til viðskipta með bréf
deCODE frekar en önnur bréf.
Bankinn hefði tekið þátt í því sum-
arið 1999 að kaupa bréf í deCODE
af stofnfjárfestum félagsins. Þau
hefðu verið seld til innlendra fag-
fjárfesta en bankinn haldið hluta
bréfanna sjálfur.
„Hluti þeirra bréfa var síðan seld-
ur hluthöfum FBA í ágúst síðast-
liðnum. Á síðasta ári var bankinn þó
heldur að bæta við eign sína í félag-
inu en hitt. Okkar aðalstarf er að
miðla skráðum verðbréfum útgefn-
um af deCODE eða öðrum,“ sagði
Finnur.
Sverrir gagnrýndi fjármálafyrir-
tækin einnig fyrir að kaupa bréfin til
baka af „þessu auðtrúa fólki“, eins
og hann orðaði það, og „hirða“ þau
aftur fyrir „smánarverð“. Finnur
Reyr vísaði þessu einnig á bug hvað
Íslandsbanka-FBA varðaði. „Vilji
fjárfestar selja bréf í deCODE, sem
enn eru bundin skilyrðum vegna
laga í Bandaríkjunum, leitum við
lausnar í hverju tilviki fyrir sig.
Eins og aðrir skuldbatt bankinn sig
gagnvart deCODE til þess að eiga
ekki viðskipti með þessi bréf á með-
an læsitímabilið svokallaða stendur
yfir,“ sagði Finnur Reyr.
Einstaklingum ekki seld
óskráð hlutabréf
Þorsteinn Þorsteinsson, fram-
kvæmdastjóri Búnaðarbankans –
Verðbréfa, vísaði gagnrýni Sverris á
bug þegar Morgunblaðið ræddi við
hann í gær. Bankinn hefði vissulega
átt viðskipti með hlutabréf í de-
CODE við tiltekna viðskiptavini en
samkvæmt þar til gerðum reglum
og enginn vankunnandi Íslendingur
hefði verið narraður.
„Okkar meginregla hefur verið
sú, varðandi viðskipti með óskráð
bréf, að láta viðskiptavininn undir-
rita yfirlýsingu þar sem honum er
gerð grein fyrir að um mjög áhættu-
sama fjárfestingu er að ræða og við-
komandi geri sér grein fyrir að hann
eigi á hættu að tapa fjárfestingunni.
Við höfum ekki lagt okkur eftir því
að selja einstaklingum óskráð bréf
heldur hefur aðallega verið um efna-
meiri og reyndari fjárfesta að
ræða,“ sagði Þorsteinn.
Hann sagðist ekki kannast við að
fjárfestar leituðu nú til bankans í
vandræðum með þessi hlutabréf og
þau lán sem hugsanlega voru tekin
vegna kaupanna á sínum tíma enda
hefði bankinn eingöngu í undan-
tekningartilvikum veitt lán vegna
kaupa á óskráðum bréfum.
Telja ummælin
vart svaraverð
Forsvarsmenn banka svara gagnrýni formanns
Frjálslynda flokksins á viðskipti með bréf deCODE
SVERRIR Hermannsson var end-
urkjörinn formaður Frjálslynda
flokksins á þriðja landsþingi
flokksins sem lauk síðdegis á laug-
ardag. Hann var sjálfkjörinn sem
og Guðjón A. Kristjánsson í emb-
ætti varaformanns flokksins og
Margrét Sverrisdóttir í embætti
ritara flokksins. Gunnar Ingi
Gunnarsson hafði áður gegnt vara-
formennsku í flokknum en hann
sagði af sér sem varaformaður um
miðjan október sl.
Á landsþinginu var samþykkt
stefnuskrá flokksins, stjórnmálayf-
irlýsing og ályktanir flokksins í
nokkrum málaflokkum en m.a.
samþykkti þingið að stefnt skuli að
framboði flokksins í sem flestum
sveitarfélögum landsins í næstu
sveitarstjórnarkosningum. Kom
m.a. fram í umræðum flokksmanna
síðdegis á laugardag að með þátt-
töku í sveitarstjórnarkosningum
myndi flokkurinn ná enn betur að
festa sig í sessi sem virkur þátt-
takandi í stjórnmálum á landsvísu.
Sagði Guðjón A. Kristjánsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins
og nýkjörinn varaformaður flokks-
ins, m.a. að ánægjulegt yrði ef
flokkurinn næði að bjóða fram í
sveitarfélögum landsins á næsta
ári; ýmist sér eða í samstarfi við
aðra flokka.
Hvatti Sverrir Hermannsson
síðan til þess í lokaávarpi sínu til
þingsins að þegar yrði hafinn und-
irbúningur að framboði flokksins í
næstu sveitarstjórnarkosningum
þegar að loknu landsþingi flokks-
ins.
Í stefnuskrá flokksins sem sam-
þykkt var á þinginu eða stefnuá-
varpi eins og hún er kölluð segir
m.a. að Frjálslyndi flokkurinn
berjist fyrir því frelsi einstaklings-
ins í samfélaginu sem veiti honum
svigrúm til athafna, en þrengi þó
ekki að öðrum svo þeir verði mis-
munun eða órétti beittir. Þá segir
m.a. að flokkurinn berjist fyrir
hæfilegu jafnvægi milli afskipta
stjórnvalda og frumkvæðis ein-
staklingsins sem og fyrir fullu
jafnrétti karla og kvenna í öllum
greinum og til áhrifa á þróun og
mótun samfélagsins.
Frjálslyndi flokkurinn berjist
hins vegar gegn hvers konar ein-
okun í viðskiptalífi og stjórnmál-
um, klíkuveldi, fordómum, innræt-
ingu skoðana, skoðanakúgun,
mismunun og ofríki gagnvart
þegnum af hvaða tagi sem er. Þá
berst hann gegn fátækt í „okkar
ríka samfélagi,“ eins og það er
orðað sem og gegn stjórnmála-
flokkum sem vilja viðhalda leynd
um fjármál sín og gegn ofríki
framkvæmdavaldsins gegn lög-
gjafarvaldi og dómsvaldi, svo eitt-
hvað sé nefnt af því sem fram
kemur í stefnuávarpi flokksins. Er
tekið fram að stefnuatriðin þurfi
að vera í sífelldri þróun og endur-
skoðun í tímans rás.
Ekki bara eins máls flokkur
Í umræðum á landsþinginu á
laugardag kom sá vilji fram í máli
margra þeirra sem til máls tóku að
flokkurinn einbeitti sér að fleiri
málefnum en sjávarútvegsmálum
þótt síðarnefndi málaflokkurinn
brynni eftir sem áður mjög heitt á
flokksmönnum. Voru enda sam-
þykktar ályktanir flokksins í ýms-
um öðrum málaflokkum, svo sem
samfélagsmálum, menntamálum,
landbúnaðarmálum og jafnréttis-
málum.
Má þar m.a. nefna ályktun um
að flokkurinn krefjist þess að
húsaleigubætur verði gerðar skatt-
frjálsar, ályktun um aukna áherslu
á verk- og tæknimenntun til að
„tryggja samkeppnishæfni at-
vinnulífs í framtíðinni“, ályktun
um að létt verði af landbúnaði hin-
um „lamandi miðstýringar- og
haftakerfi sem greinin hafi búið
við“ og að lokum má nefna sam-
þykkt jafnréttisáætlunar um að við
röðun á framboðslista flokksins
skuli reynt að tryggja að hlutur
kynjanna verði sem jafnastur á
framboðslistum til Alþingis og
sveitarstjórna.
Hvalveiðar hefjist að nýju
Í ályktun flokksins um sjávarút-
vegsmál er ítrekuð sú skoðun
flokksmanna að þeir telji höfuð-
nauðsyn að leggja af núverandi
fiskveiðistjórnunarkerfi. Í stórn-
málayfirlýsingu þingsins segir
ennfremur að stjórn núverandi
valdhafa í fiskveiðimálum sé órétt-
látasta lénsveldisstefna sem yfir
Íslandi hafi dunið. Hreinræktuð
landeyðingarstefna sem sé að
leggja af sjávarbyggðirnar.
Í ályktuninni um sjávarútvegs-
mál segir m.a. að afnema beri nú-
verandi kvótaúthlutun og að nú-
verandi rétthöfum verði tryggð
aðlögun til breyttra hátta. „Frjáls-
lyndi flokkurinn telur, að sú fyrn-
ingarleið sem nefnd er í skýrslu
auðlindanefndar sé fær til afnáms
núverandi kvótakerfis, enda verði
framkvæmd breytinganna gerð á
fimm árum. Sóknarstýring verði
tekin upp alls staðar sem fyrst,
þar sem því verður við komið, með
hagsmuni sjávarbyggða að leiðar-
ljósi. Upphaf umskipta þarf að
marka með skiptingu flotans í að-
greinda útgerðarflokka.“
Þá segir í ályktun þingsins um
sjávarútvegsmál að flokkurinn telji
að engin haldbær rök hamli því að
hvalveiðar hefjist á Íslandsmiðum
í vor og er í því sambandi vísað til
fyrirhugaðrar sölu Norðmanna á
hvalaafurðum á erlendum mörk-
uðum.
Varað við þenslustefnu
stjórnvalda
Í stjórnmálayfirlýsingu lands-
þingsins eru viðbrögð stjórnvalda
við dómi Hæstaréttar í máli Ör-
yrkjabandalags Íslands og Trygg-
ingastofnunar ríkisins harðlega
fordæmd. Ennfremur er í stjórn-
málayfirlýsingu varað við þenslu-
stefnu stjórnvalda í efnahags- og
ríkisfjármálum. Segir þar að nauð-
synlegs aðhalds hafi ekki verið
gætt.
„Útgjöld ríkisins fara langt fram
úr verðlagsþróun og tekjuafgang-
ur ríkissjóðs er froðufé, sem rætur
á að rekja að verulegu leyti til
ógnarlegs viðskiptahalla. Fyrirsjá-
anlega munu ríkisútgjöld fara
langt fram úr fjárlögum eins og
Samtök atvinnulífsins hafa sýnt
fram á,“ segir m.a. Ennfremur að
ríkisstjórnin taki ekki hið minnsta
mark á aðvörunum aðila vinnu-
markaðarins í þessum efnum.
Eins og fyrr segir lauk lands-
þinginu síðdegis á laugardag og
sagði Sverrir Hermannsson, for-
maður flokksins, m.a. í lokaávarpi
sínu að framundan væri mikið
starf innan flokksins enda væri bú-
ið að samþykkja grundvöll flokks-
starfsins með breiðum og málefna-
legum grunni. Vísaði hann til
þeirra ályktana og yfirlýsinga sem
þingið hafði þegar samþykkt.
Miðstjórn Frjálslynda flokksins
skipa: Auður Matthíasdóttir, Berg-
ljót Halldórsdóttir, Birgir Björg-
vinsson, Björgvin E. Arngrímsson,
Grétar Mar Jónsson, Guðmundur
Wiium Stefánsson, Óskar Þór
Karlsson, Pétur Bjarnason, Kjart-
an Eggertsson og Reynir Hlíðar
Jóhannsson.
Sverrir Hermannsson endurkjörinn formaður Frjálslynda flokksins
Stefnt að framboði í næstu
sveitarstjórnarkosningum
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sverrir Hermannsson var endurkjörinn formaður Frjálslynda flokks-
ins. Hann var sjálfkjörinn.
LANDSMENN brugðust vel við
neyðarkalli frá El Salvador í kjölfar
jarðskjálftans þar fyrir viku og hægt
verður að styðja hjálparstarfið með
fimm milljóna króna framlagi frá
Rauða krossi Íslands. Mikil þörf er
enn fyrir matvæli, drykkjarvatn,
bráðabirgðahúsnæði og áfallahjálp á
stöðum þar sem stórir hlutar þorpa
og bæja grófust undir aur.
Nærri þrjú þúsund manns hringdu
í númerið 907 2020 og með því söfn-
uðust 1,4 milljónir króna, en Lands-
síminn gaf alla þjónustu við söfnunar-
númerið. Ein milljón króna var fengin
úr Hjálparsjóði Rauða krossins, rík-
isstjórnin gaf eina milljón og afgang-
urinn kom frá deildum félagsins og al-
menningi með ýmsum hætti.
Hjálparstarfið beinist nú að þörf-
um þeirra sem lifðu af en margir
þeirra hafa misst allt sitt. Rauði
krossinn í El Salvador hefur þegar
komið hjálpargögnum til um 100 þús-
und manna á 43 stöðum í landinu. Þá
hafa stjórnvöld í El Salvador beðið
Rauða krossinn að hafa umsjón með
aðstoð við um 50 þúsund manns sem
eru heimilislaus og dvelja í opinberum
byggingum, tjöldum og öðru bráða-
birgðahúsnæði.
Undanfarna daga hefur lið sér-
fræðinga frá Alþjóða Rauða krossin-
um metið aðstæður. Sérfræðingarnir
munu gera tillögur að áframhaldandi
aðstoð við fórnarlömb skjálftans.
Fimm millj-
ónir til
El Salvador
♦ ♦ ♦
Fannst í
biðröð fyrir
utan nekt-
ardansstað
Stal peningaskúffu með
talsverðum fjármunum
KARLMAÐUR á sextugsaldri stal
peningaskúffu úr veitingasal á Hótel
Borg í fyrrinótt, sem í voru talsverð-
ir fjármunir. Starfsfólk gat gefið lög-
reglu greinargóða lýsingu á mann-
inum og fannst maðurinn um
klukkustund síðar þar sem hann stóð
í biðröð fyrir utan nektardansstað í
miðborginni.
Maðurinn kom inn í veitingasalinn
eftir lokun og mun hafa verið ósáttur
við að fá ekki afgreiðslu. Þegar hon-
um var vísað út hrifsaði hann með
sér peningaskúffu sem í voru 50–70
þúsund krónur og hljóp á brott. Þeg-
ar lögreglan fann manninn var hann
enn með talsverða fjármuni á sér.
Hann vísaði síðan lögreglunni á
peningaskúffuna sem hann hafði
kastað frá sér í Mjóstræti. Hann var
því næst fluttur í fangageymslur lög-
reglunnar.
Lést af völd-
um höfuð-
áverka
Maðurinn sem fannst
meðvitundarlaus
í fangaklefa
lögreglunnar
DÁNARORSÖK mannsins sem
fannst meðvitundarlaus í fangaklefa
lögreglunnar í Reykjavík og lést
hinn 17. desember á sjúkrahúsi í
Reykjavík var höfuðáverki. Áverk-
arnir eru ekki taldir hafa verið af
mannavöldum heldur hafi maðurinn
slasast á höfði við fall.
Samkvæmt upplýsingum frá lög-
reglunni leiddi krufning í ljós að
maðurinn hafði fengið höfuðáverka
1–2 sólarhringum áður en hann var
fluttur í fangaklefa lögreglunnar 14.
desember sl.
♦ ♦ ♦